141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

633. mál
[01:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka hamingjuóskir til allra þeirra sem hafa lagt mikið á sig í mörg ár til að þetta verkefni verði að veruleika. Heimamenn hafa sýnt mikla samstöðu og barist fyrir því, verið sanngjarnir, málefnalegir, kannað öll þau áhrif í mörg ár og hafa þurft að sætta sig við að meira að segja hafi verið gengið lengra en eðlilegt var í þeim efnum. Það er í raun ekki hægt að rannsaka málið meira.

Mig langar til að segja: Ef menn eru ekki reiðubúnir til að ráðast í þetta verkefni til að byggja upp atvinnu með þá umhverfisvænu orku sem er til staðar er ég bara ekki viss um að hægt verði að ráðast í neins konar atvinnuuppbyggingu í framtíðinni. Ef þetta gengur ekki er nánast allt út af borðinu. Að sjálfsögðu þurfum við að finna eðlilegan farveg (Forseti hringir.) fyrir slík verkefni en mér finnst heldur langt gengið hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni.