141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[01:16]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég flyt breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala. Þessi breytingartillaga er hluti af samkomulagi um þinglok sem gert var fyrr í kvöld.

Í fyrsta lagi er í breytingartillögunni gert ráð fyrir að lög þessi öðlist gildi 1. september 2013 í stað þess að öðlast gildi við samþykkt frumvarpsins og er það gert til að koma til móts við kröfu Framsóknarflokksins sem hefur reynt að drepa málið í umræðum um þinglok.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í breytingartillögunni að ráðherra verði heimilt að ráðast þegar í forval vegna undirbúnings og útboðs á fullnaðarhönnun á nýjum Landspítala. Með samþykkt þessa frumvarps má fagna því að frá og með þessari atkvæðagreiðslu er heimilt að ráðast í útboð, forval á fullnaðarhönnun á nýjum Landspítala, og því hægt að fagna því að verkið er hafið.