141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[01:20]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Sú breytingartillaga sem Alþingi samþykkti áðan heimilar að farið sé í forval til fullnaðarundirbúnings við byggingu nýs Landspítala, (Gripið fram í.) ekki til að fara í útboð eða samþykkja að öðru leyti fjárveitingar. Í frumvarpinu sem var samþykkt hérna við 2. umr. og verður líklega samþykkt á eftir er gert ráð fyrir því að fjárlaganefnd og Alþingi komi að verkinu og síðan muni það auðvitað verða ákveðið í fjárlögum hvers árs. Þessu á hv. þm. Pétur Blöndal að gera sér grein fyrir ef hann les frumvarpið og nefndarálit meiri hlutans.

Virðulegi forseti. Þetta mál er búið að vera í undirbúningsferli lengi, hátt í áratug. Það er búið að vera í umfjöllun í fjárlaganefnd allt þetta kjörtímabil. Um það voru sett sérstök lög árið 2010. Verið er að breyta þeim nú, úr því að fara úr svokallaðri leiguleið í opinbera framkvæmd og ég hvet alla þingmenn — ég sé að einhverjir ætla nú að greiða atkvæði gegn frumvarpinu hér í kvöld — (Forseti hringir.) til að styðja þetta góða mál og fagna því að nú er að hefjast uppbygging og bygging nýs þjóðarspítala, nýs Landspítala hér í Reykjavík. (Gripið fram í.)