141. löggjafarþing — 114. fundur,  28. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[01:29]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég styð það frumvarp sem hér er til umræðu og atkvæðagreiðslu. Ég geri það vegna þess að ég er stuðningsmaður þeirra tillagna sem verið hafa til umfjöllunar í vetur um breytingar á nýrri stjórnarskrá. Það eru mér, eins og mörgum öðrum, vonbrigði að ekki hafi tekist að ganga lengra í meðferð stjórnarskrármálsins en raun ber vitni. Við erum mörg sem hefðum gjarnan viljað sjá stjórnarskrána afgreidda alla eða að minnsta kosti veigamikla hluta hennar í þessari atrennu, til dæmis ákvæði um þjóðareign á auðlindum.

Því miður hafa Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn umfram aðra komið í veg fyrir það á þessu þingi eins og áður eru dæmi um. Ég lít svo á að þetta sé leið til þess að tryggja að það verði alla vega mögulegt að halda áfram vinnunni við breytingar á stjórnarskrá á næsta kjörtímabili í stað þess að vera (Forseti hringir.) pikkfastur í þeim breytingarákvæðum sem eru í gildandi stjórnarskrá. Ég er sannfærður um að það er rétt skref að tryggja þennan möguleika inni á næsta kjörtímabili og ég hef sannfæringu fyrir því og ég óska eftir því að þeir sem mest tala um lýðræði beri virðingu fyrir þeim sjónarmiðum.