142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Við höfum nú hlýtt á fyrstu stefnuræðu nýs forsætisráðherra og ég óska honum og ríkisstjórninni alls góðs í starfi. Ég fagna einnig sérstaklega nýjum þingforseta okkar allra og óska honum farsældar í störfum. Ég heilsa líka nýju þingi.

Það hefur orðið mikil nýliðun á Alþingi Íslendinga í þessum kosningum og margir hafa áhyggjur af þeirri þróun. Ég deili ekki þeirri skoðun. Ég hef of oft heyrt frá því að ég tók sæti á Alþingi hið margkunna viðkvæði: „Ja, við höfum nú alltaf gert þetta svona.“ Það er sjálfstætt markmið að við finnum saman betri leiðir til að gera hlutina á nýjan hátt, öll saman hér á Alþingi, og að við þorum að móta saman stjórnarhætti sem styðja við lýðræðislega ábyrgð og gera okkur kleift að takast á um ólíkar skoðanir á lýðræðislegan og friðsamlegan hátt.

Við breyttum um verklag á síðasta kjörtímabili og því kemur stjórnarandstaðan nú að forustu í þingnefndum. En það er þörf á að breyta fleiru. Eitt blasir við: Að koma í veg fyrir slys eins það sem varð fyrir helgi við skipan í karlanefndir og kvennanefndir þingsins. Það slys má ekki endurtaka sig.

Annað: Við þurfum að tryggja að stjórnarandstaða fái allar trúnaðarupplýsingar um efnahagsmál. Síðast þegar þessir tveir flokkar voru í ríkisstjórn héldu þeir því leyndu að bankakerfið riðaði til falls og komu þannig í veg fyrir að unnt væri að grípa tímanlega inn í það hættuástand sem þá var í uppsiglingu. Það má ekki endurtaka sig. Við munum ganga ríkt eftir því að allt verði uppi á borðum og almennar leikreglur gildi um ráðstöfun ríkiseigna. Einkavæðingarsagan og þau spor hræða.

Í þriðja lagi er það svo stóra tækifærið sem við stöndum frammi fyrir. Nú hefur verið lagt fram til staðfestingar eftir samþykkt á síðasta þingi nýtt breytingarákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins. Efni þess markar tímamót með því að Alþingi verður ekki lengur einrátt um stjórnarskrárbreytingar heldur fara núna þing og þjóð saman með stjórnarskrárbreytingavaldið. Með samþykkt þeirrar breytingar gefst ríkisstjórninni tækifæri til að standa við fyrirheit sín í stjórnarsáttmála um stjórnarskrárbreytingar. Augljóslega á að hefja verkefnið á haustþingi með nýju ákvæði um þjóðareign á auðlindum.

Við erum líka reiðubúin til að ræða grundvallarbreytingar til góðs á þingsköpum í samhengi við breytingar á stjórnarskrá. Eigum við að sameinast um að veita þriðjungi þingmanna réttinn til að vísa málum í þjóðaratkvæði og binda þar með enda á málþófið?

Ég nefndi áðan hina lýðræðislegu ábyrgð. Til að rísa undir henni þarf fyrst að axla hana. Ný ríkisstjórn komst til valda með því að lofa fleirum meiru en dæmi eru um í Íslandssögunni. Slíkum loforðum fylgir mikil ábyrgð og það er nýrrar ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar hér í þessum sal að axla hana og standa undir henni.

Ríkisstjórnin fer ekki sérstaklega vel af stað í því efni. Umfjöllunin um skuldamálin var veikburða í stefnuræðunni. „Engar nefndir, aðgerðir strax“, sagði formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar. Nú á að skipa nefnd eftir nefnd. Hæstv. félagsmálaráðherra leiddi á síðasta kjörtímabili nefndastarf á vegum efnahagsráðuneytisins sem hafði það að markmiði að finna leiðir til að draga úr vægi verðtryggingar. Af hverju þarf þá núna nýja nefnd um afnám verðtryggingar? Hvað á sú nýja nefnd að gera sem var ekki hægt að gera í fyrri nefnd?

Forsætisráðherra boðar nú þingsályktunartillögu en engar aðgerðir. Alþingi getur svo sem ályktað að ráðherrar eigi að vinna vinnuna sína, en það leysir þá ekki undan ábyrgðinni að koma með lausnir. Hann sagði við okkur fyrir kosningar að þetta væri hægt — við munum öll eftir alvöruþrungnu augnaráðinu úr sjónvarpsauglýsingum Framsóknarflokksins kvöldið fyrir kjördag — og ýmsir hv. þingmenn Framsóknarflokksins lofuðu skuldaniðurfellingu strax núna í sumar. Það er kominn júní og það eina sem við sjáum er hik.

Forsætisráðherra boðaði í ræðunni skynsemisstefnu í rekstri ríkisins. Ég endurtek: Skynsemisstefnu. Að ná tökum á verðbólgunni, greiða niður skuldir og efla efnahagslífið. Það er allt rétt og í anda efnahagsstefnu síðustu ríkisstjórnar. En hin nýja ríkisstjórn er lögð af stað allt aðra leið. Aukin útgjöld eru boðuð. Fyrsta ríkisfjármálafrumvarpið liggur fyrir og það felur í sér að auka hallarekstur ríkissjóðs. Fjármálaráðherra segist í útvarpsviðtali ætla að lækka fleiri skatta, en hann veit samt ekki alveg hverja. Samt segir forsætisráðherra hér áðan að horfurnar í rekstri ríkissjóðs séu miklum mun verri en haldið hafi verið fram og að það sé ekki fögur mynd sem við blasi. Þetta segir hann þótt allir viti að hann taki við góðu búi.

Bíðum nú við. Rekstrarhorfurnar eru slæmar en samt eru fyrstu verkin að auka útgjöld og draga úr tekjum. Hver er skynsemin í þeirri stefnu? Ríkisstjórnin er ekki mánaðargömul en hefur samt sett einhvers konar met í sundurleysi. Og ekki er þar ágreiningi milli stjórnarflokkanna um að kenna. Nei, þvert á móti, Sjálfstæðisflokkurinn situr í aftursætinu og unir sér þar vel. Það er forustuleysi Framsóknarflokksins sem vekur undrun. Forsætisráðherrann segir að ekki standi til að leggja umhverfisráðuneytið niður, en umhverfisráðherrann segir það standa til. Forsætisráðherrann sagði á Laugarvatni að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna yrði haldin á kjörtímabilinu en umhverfisráðherrann — sem bregður sér líka stundum í hlutverk utanríkisráðherra að því er virðist — segir að svo verði ekki að óbreyttu.

Góðir Íslendingar. Forsætisráðherra sagði margt fallegt í stefnuræðunni en mest áberandi var það sem ekki var sagt. 21. öldin kom þar lítið við sögu. Fortíðarþráin er svo sterk að orðið „iðnaður“ er hvergi að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra sagði ekkert áðan um þekkingu sem drifkraft efnahagsframfara. Ekkert um nýjar skapandi greinar sem geta skilað okkur sífellt fleiri þekkingarstörfum. Ekkert um upplýsingatækni sem getur bylt aðstæðum okkar til góðs. Ekkert um bættan markaðsaðgang fyrir íslenskar afurðir og þjónustu á okkar mikilvægustu mörkuðum, sem er hin raunverulega forsenda aukningar matvælaframleiðslu á Íslandi. Lítið um hvernig Ísland geti þróað samskipti sín við umheiminn, en meira um það sem ríkisstjórnin ætlar ekki að gera á því sviði.

Á tímum óvissu er skiljanlegt að leita öryggis með því að draga sig inn í skel. Þannig er glímunni við hið óþekkta frestað. En ný kynslóð Íslendinga getur ekki hopað af hólmi. Nýjar ógnir hverfa ekki þó að við höldum okkur heima. Alvarleg áföll á alþjóðlegum fjármálamörkuðum keyrðu Ísland á kaf fyrst allra ríkja. Við, sem högnuðumst á hræringum 20. aldarinnar — hvers konar styrjöldum, köldum og heitum, og alls konar óáran — njótum nú engrar verndar lengur af landfræðilegri einangrun. Átök og loftslagsbreytingar hafa geigvænleg áhrif á lífsskilyrði fólks víða um heim og flóttamenn undan þeim hörmungum leita líka skjóls hér. Skynsamlegasta flóttamannastefna Íslands felst í að taka þátt í að tryggja fólki frið, umhverfisgæði, öryggi, velsæld og mannréttindi heima hjá sér. Þess vegna þarf Ísland alvöru efnahags-, umhverfis- og utanríkisstefnu. Þess vegna væri jafn fáránlegt að leggja niður umhverfisráðuneytið og að leggja niður fjármálaráðuneytið. Það er engin skynsemisstefna í því.

Sama á við um aðildarumsóknina. Það má færa rök fyrir því að rétt sé að anda í kviðinn og meta aðstæður. En bið er ekki stefna og ríkisstjórnin býður ekki upp á neina aðra trúverðuga sýn. Gamalkunnugt japl um eflingu viðskiptatengsla við harðstjórnarríki í fjarlægum heimsálfum er innihaldslaust. Þau samskipti eru góð út af fyrir sig en koma ekki í staðinn fyrir tengsl okkar við Evrópu og munu aldrei gera.

Maður spyr sig: Var þetta stefnuræða ríkisstjórnar fyrri aldar? Fannst hún í rykugu djúpi skjalasafns Framsóknarflokksins? Er hér í fæðingu ný pólitísk tilraun gamalgróinna haftaflokka til að finna öryggi sitt í helmingaskiptum af gamalli sort? Hér er enga viðreisnarstefnu að finna sem vísaði út og fram. Þetta er stefna sem vísar inn á við og aftur á bak. Hún á hvorki nokkur svör við langtímaverkefnum íslensks samfélags né nokkra sýn til framtíðar. Fyrir Ísland 21. aldar er slík kyrrstaða ekki valkostur.

Afnám hafta, þjóðarsátt á vinnumarkaði, afskriftir skulda heimila á grundvelli gegnsærra og réttlátra leikreglna, sókn í nýsköpunargreinum atvinnulífsins og áframhaldandi aðild okkar að innri markaði Evrópu eru verkefni sem þola enga biðleiki, ekkert hik, engin ráðvillt svör frá einum ráðherra til annars. Þetta er það sem ríkisstjórn Íslands á að vera að gera, samstillt og óþreyjufull, að leysa varanlega gjaldmiðilsvandann, verðbólguvandann og koma böndum á óstöðugleikann sem rýrt hefur eignir kynslóða á kynslóðir ofan í landi okkar.

Hið sögulega hlutverk jafnaðarmanna er barátta fyrir jöfnum tækifærum og traustri velferð. Þegar allt logaði í ófriði tókst okkur að verja velferðina svo að eftir var tekið um allan heim. Við jukum úrræði fyrir ungt atvinnulaust fólk og byggðum hjúkrunarheimili um allt land. Nú er fyrsta verk okkar á nýju þingi að leggja fram að nýju frumvarp um almannatryggingar sem bætir enn aðstæður lífeyrisþega. Síðast þegar þessi tveir flokkar sátu í ríkisstjórn stóðu lífeyrisþegar í linnulausum átökum við ríkisstjórnina og þurftu að sækja sjálfsögð mannréttindi fyrir dómstólum. Við munum standa vaktina í velferðarmálum, enda ekki vanþörf á.

Góðir Íslendingar. Einar Benediktsson lýsti í Íslandsljóðum þeim vanda þjóðarinnar að búa við sjálfsköpuð takmörk, hlekki hugarfarsins, geta bjargað sér en ná því ekki. Vera „bjargarlaus við frægu fiskisviðin“, eins og hann sagði. Hvatning hans til þjóðarinnar er eins og skrifuð til leiðtoga ríkisstjórnar Íslands í dag: „Hve skal lengi dorga, drengir / dáðlaus upp við sand?“ Við búum við gnótt tækifæra. Það eina sem við þurfum er hugrekkið til að þora að nýta þau. — Góðar stundir.