142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Kæru Íslendingar. Það er merkileg stund þegar þing kemur saman í upphafi kjörtímabils. Nýir þingmenn taka sæti ásamt þeim sem hafa endurnýjað umboð sitt til að starfa í þágu almennings. Í því felst þungi starfa okkar sem fáum notið þess heiðurs að sitja á Alþingi allra Íslendinga að þjóna sem best við getum hagsmunum þjóðarinnar í bráð og lengd.

Í fyrsta sinn í sögunni er mynduð ríkisstjórn þar sem enginn hefur gegnt ráðherradómi áður. Öll höfum við þó reynslu af störfum á Alþingi, þekkjum löggjafarstarfið og samspil framkvæmdar- og löggjafarvaldsins. Öll berum við einnig virðingu fyrir venjum og hefðum, en það má búast við að nýju fólki fylgi nýjar áherslur.

Það á líka við um stjórnarandstöðuflokkana sem annaðhvort hafa valið sér nýja forustu eða eru ný öfl í pólitíkinni. Af þeirra hálfu má strax finna vilja til að störf þingsins geti orðið undir merkjum meira samstarfs og samvinnu en á nýloknu kjörtímabili. Það er mjög ánægjulegt og ég hlakka til að vinna með þingmönnum öllum að málum sem verða landsmönnum til heilla og framfara.

Líkt og kom fram í ræðu nýkjörins forseta Alþingis á fyrsta fundi þingsins þurfa breytingar í vinnubrögðum þingsins að eiga sér stað og þær þurfa að koma innan frá, frá þingmönnum sjálfum. Aðbúnaður og aðstaða þingmanna skiptir einnig miklu. Frá því ég tók sæti á Alþingi árið 2003 hef ég viljað vinna að því að styrkja þingið og auðvelda þingmönnum að rækja skyldur sínar. Þar er enn verk að vinna.

Góðir landsmenn. Við ætlum að horfa fram á við, láta verkin tala. Það skiptir okkur öllu. Standa við gefin fyrirheit um að fylgja landinu inn í nýtt framfaraskeið. En um leið og við hugum að framtíðinni þurfum við að taka á aðkallandi málum sem eru forsenda þess að við getum farið af krafti í uppbygginguna. Það eru mál sem varða skuldir heimilanna, uppgjör við kröfuhafa og stöðu ríkissjóðs. Við ætlum okkur að endurskoða skattkerfið, einfalda það og lækka skatta þar sem það getur augljóslega létt undir með einstaklingum og fyrirtækjum, orðið til þess að örva hagvöxt og fjölga störfum. Jafnframt er mikilvægt að í fjárlagafrumvarpi ársins 2014 sjáist þess glögg merki að við ætlum okkur að stöðva hallarekstur og skuldasöfnun ríkissjóðs til þess að tryggja að afkoma hans verði aftur sjálfbær, að við eigum fyrir öllum útgjöldum og getum þannig farið að lækka skuldir.

Þótt tölur sem við höfum nú fengið um stöðu ríkisfjármálanna sýni verri stöðu en gert var ráð fyrir breytir það ekki þeirri ætlan okkar að reka hallalausan ríkissjóð. Á yfirstandandi ári var samkvæmt fjárlögum stefnt að því að lækka hallann á ríkisrekstrinum verulega og nálgast heildarjöfnuð þegar fjárlög eru skoðuð á rekstrargrunni. Töluverðar breytingar hafa hins vegar orðið bæði á tekju- og útgjaldahliðinni frá því fjárlög voru afgreidd hér undir lok síðasta árs. Ákvarðanir sem voru teknar undir lok ársins um aukin útgjöld byggðu á tekjum, svo sem arðgreiðslum og sölu eigna, sem eru ekki að skila sér að fullu. Þar gæti vantað um 4 milljarða kr. Hagvöxtur er minni en gert var ráð fyrir og búast má við lægri tekjum vegna þess um aðra 4 milljarða kr. Þá er á þessu stigi útlit fyrir ýmis umframútgjöld sem gætu orðið nálægt 6 milljörðum kr. Það verður þó að sjálfsögðu tekið til skoðunar hjá einstökum ráðuneytum hvernig bregðast má við þeirri stöðu. Þessu til viðbótar er rétt að gera ráð fyrir þeim möguleika að gjaldfæra þurfi verulegan hluta af fyrirhuguðu 13 milljarða kr. framlagi ríkisins til Íbúðalánasjóðs.

Samanlagt breyta þessar forsendur myndinni í ríkisfjármálum allverulega og má, miðað við þessar forsendur, gera ráð fyrir að það stefni í sama halla og á fyrra ári. Það þýðir rúmlega 30 milljarða halla. Þetta er hið góða bú sem getið hefur verið um af nýkjörnum formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, og öðrum stjórnarandstæðingum sem í sífellu tala um hið góða bú sem ríkisstjórnin tekur við. Þetta er staðan. Það er mikilvægt að við vitum hver hún er við upphaf kjörtímabilsins.

Til að vinda ofan af þessari stöðu verður ekki nóg að leggja áherslu á varfærni í ríkisútgjöldum heldur verður að skapa hér umhverfi sem gefur af sér meiri hagvöxt en undanfarin ár. Vel rekinn ríkissjóður er liður í því að byggja upp traust fjárfesta á efnahagslegri endurreisn landsins og vissulega forsenda þess að hér verði hægt að aflétta gjaldeyrishöftum án þess að stefna stöðugleika í hættu. Mikilvægur þáttur í því er að lækka vexti, en hátt vaxtastig vinnur gegn fjárfestingu og framkvæmdum. Það eru því samrýmanleg markmið að reka hallalausan ríkissjóð og auka hagvöxt.

Traust er í þessu samhengi mikilvægt. Traust fjárfesta á umhverfinu. Traust almennings á því að við munum ekki leggja frekari byrðar á heimilin í landinu og traust okkar á að einstaklingar og fyrirtæki komi með okkur í þetta verkefni. Árangurinn veltur á endanum á dugnaði, heiðarleika og skynsemi. Við þurfum að leggja hart að okkur við uppbygginguna. Við verðum að geta treyst því að allir taki þátt í henni og leggi sitt af mörkum til sameiginlegra sjóða og við verðum að horfast í augu við að við getum ekki gert allt í einu. Við höfum mikla trú á því að byrja strax.

Við höfum þegar lagt fram nokkur mál sem styðja við stefnu ríkisstjórnarinnar. Hæstv. forsætisráðherra fór hér rétt áðan yfir þingsályktunartillögu sem verður vegvísir fyrir starf næstu mánaða hvað varðar skuldamál heimilanna. Á sviði skattamála er komið fram frumvarp um afturköllun virðisaukaskattshækkunar á ferðaþjónustu sem við í þáverandi stjórnarandstöðu börðumst gegn. Við erum að vinda ofan af þeirri ákvörðun sem fyrri ríkisstjórn tók. Einnig er væntanlegt frumvarp til breytinga á ýmsum skattalögum, en með þeim viljum við byrja að létta byrðar heimilanna. Það er markmið okkar að auka ráðstöfunartekjur heimilanna jafnt og þétt allt kjörtímabilið.

Skattar sem eru til skoðunar fyrir þetta sumarþing eru í þessu samhengi til dæmis eldsneytisskattar og skattar á raforku og heitt vatn sem lagðir voru á heimilin. Við erum líka með til skoðunar að lækka sérstaklega byrðar barnafólks með því að lækka virðisaukaskatt á barnaföt. Allt eru þetta dæmi um mál sem við erum með til skoðunar og koma til greina í skattalagafrumvarp fyrir sumarþingið.

Góðir Íslendingar. Sjálfstæði er okkur mikilvægt til að ráða okkur sjálf og vera þjóð meðal þjóða. Slíkt sjálfstæði verður ekki einungis tryggt með lögum heldur þarf það einnig að endurspeglast í efnahagslegri getu og styrk. Sjálfstæði er nátengt frelsi. Undanfarin ár höfum við þurft að búa við skert frelsi til athafna. Gjaldeyrishöftin hvíla eins og mara á íslensku efnahagslífi. Íslensk fyrirtæki standa höllum fæti gagnvart erlendum vegna þeirra, missa af mikilvægum tækifærum vegna seigju kerfisins og innlendir fjárfestar eiga erfitt með að dreifa áhættu í fjárfestingum sínum vegna takmarkana á fjármagnsflutningum. Meðan höftin standa erum við eins og gölluð vara í augum umheimsins. Ég hef stundum sagt að höftin séu eins og blikkandi ljós yfir landinu þar sem stendur „varúð“.

Við trúum ekki á virði gjaldmiðilsins. Það er ósanngjarnt að land sem býr yfir jafnmiklum og spennandi tækifærum og Ísland skuli vera í þeirri stöðu. Því lengur sem við búum við þetta ástand því óeðlilegra og veikara verður hagkerfi okkar, flækjustig eykst, hætta skapast á bólumyndun og erfiðleikar við að aflétta höftum án verulegra áhrifa á efnahagslífið magnast stig af stigi.

Ég hef þegar nefnt mikilvægi þess að ná tökum á hallarekstri ríkissjóðs í tengslum við afnám haftanna, en fleira þarf að koma til. Í nánustu framtíð verður að finna lausn vegna þrotabúa fallinna banka. Sama gildir um aflandskrónuvandann. Loks er þörf á endurfjármögnun stórra skuldbindinga. Undirbúningur að þessum aðgerðum er þegar hafinn. Við munum setja áætlun í þessum efnum í forgang með áherslu á að ljúka verkefninu sem fyrst, að því gefnu að niðurstaðan sé íslenska ríkinu hagfelld og þar með þjóðinni. Tíminn verður því ekki látinn ráða för, það er niðurstaðan sem skiptir öllu máli.

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Eitt af stóru málunum er að tryggja stöðugleika og sátt um kjaramál. Það er mikilvægt að stjórnvöld, vinnuveitendur, stéttarfélög og launþegar séu samtaka í þeim aðgerðum sem farið verður í næstu ár. Við munum því hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir, m.a. um lækkun tryggingagjalds og frekari lækkanir og breytingar á skattkerfinu, áður en til þeirra verður gripið. Með því að líta heildstætt á þessi mál má vinna gegn víxlverkun launahækkana og verðbólgu. Það er stórmál fyrir okkur öll. Þannig tryggjum við að kjarabætur skili sér í raun og stuðlum að friði á vinnumarkaði.

Á fyrstu dögum mínum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hef ég þegar orðið var við ríkan vilja á vinnumarkaði til þess að láta reyna á nýja nálgun, meiri langtímahugsun og styrkari grunn að gerð kjarasamninga. Markmiðið er bætt kjör og traustari forsendur undir gerð þeirra. Þetta eru jákvæð merki. Friður og sátt er markmið í sjálfu sér sem á við í víðu samhengi.

Við erum svo heppin að það er miklu fleira sem sameinar okkur en sundrar. Við höfum sameiginlega hagsmuni af því að byggja hér upp framsækið samfélag sem byggir á fjölbreyttu atvinnu- og menningarlífi. Slíkt samfélag fagnar skapandi hugsun, framtakssemi og nýjungum, hefur í hávegum farsælar og rótgrónar atvinnugreinar og metur að verðleikum þær auðlindir sem því eru gefnar. Um það snúast áform okkar, að taka upp rammaáætlun, að finna sameiginlegan flöt á virkjun og verndun. Að því hefur verið látið liggja að á bak við þá fyrirætlun sé einungis erindisrekstur fyrir stóriðjusinna. Það er rangt. Markmiðið er ekki að þjóna hagsmunum eins umfram annan heldur að ná sátt um nýtingu auðlinda sem geta skapað hér græna orku um ókomna tíð og um verndun svæða sem við erum sammála um að ekki skulu nýtt. Það er brýnt að höggva á hnút deilna um þessi mál. Það er skynsamlegt að leita til færustu sérfræðinga okkar um góð ráð og varanlega niðurstöðu. Einbeitum okkur síðan að framtíðinni, að því að lifa saman og lifa af landinu, í sátt við það og hvert annað.