142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Góðir landsmenn. Fyrir nýliðnar kosningar vantaði ekki að núverandi stjórnarflokkar töluðu skýrt. Öllu fögru var lofað. Milljarðatugum og jafnvel milljarðahundruðum til heimilanna í landinu var lofað af núverandi stjórnarflokkum. „Engar nefndir, bara efndir“, var gjarnan viðkvæðið. Lausnir á allra manna vanda voru handan við hornið, bara ef menn kysu gamla bræðrabandalagið: Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.

En hvaða veruleiki blasir nú við að kosningum loknum? Það eru fleiri nefndir, starfshópar og úttektir en blaðsíður í stjórnarsáttmálanum eða 19 talsins. Stóra lausn Framsóknarflokksins á forsendubrestinum sem hrunið lagði á heimilin í landinu og átti að koma úr vasa erlendra kröfuhafa — strax í sumar, ef þið munið það — er ekki öruggari en svo að í stjórnarsáttmálann er komið plan B og plan C í þessum efnum.

Meira að segja verðtryggingin, þessi sem ekki átti að vera eitt einasta mál að banna, á að fara í enn eina nefndina. Með öðrum orðum: Öll stóru, skotheldu málin sem eingöngu þurfti að smella fingri til að leysa eru kannski ekki svo einföld eftir allt saman. Því sjáum við hér engar efndir, bara nýjar nefndir.

Góðir landsmenn. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er fjallað um mikilvægi samtakamáttarins ásamt mikilvægi þess að eyða pólitískri óvissu. Það eru göfug fyrirheit. Og um leið felst í því bón til okkar sem í stjórnarandstöðu sitjum að haga okkur ekki eins og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gerðu í sinni stjórnarandstöðu á liðnu kjörtímabili heldur vinna með þeim. Mér finnst það sjálfsagt og eðlilegt að ábyrg stjórnmálaöfl í stjórnarandstöðu vinni með stjórnarflokkum hverju sinni að framfaramálum fyrir landsmenn alla.

En þá þurfa menn líka að sýna að þeir meini það sem þeir segja. Og geri ég ráð fyrir því að í nefndunum 19 verði kallað á stjórnarandstöðuna til skrafs og ráðagerða.

Þessi ríkisstjórn byrjar þó ekki vel á samráðssviðinu, ekki síst hvað varðar hin mikilvægu málefni umhverfis og auðlinda. En í þeim málum ríkir fullkomin pólitísk óvissa sem við verðum að fá svör við nú þegar.

Verður rammaáætlun eins og hún var samþykkt af Alþingi á síðasta þingi virt eða ætla menn að gera eins og ráðherrar í þessari ríkisstjórn boðuðu nú síðast í dag, að tína úr biðflokki kosti til að virkja eftir pólitískum geðþótta? Þessu þarf að svara því rammaáætlun er okkur þjóðinni gríðarlega mikilvæg því hún færir okkur nær heildarsýn og sátt um friðunar- og virkjunarkosti og fjær deilum um einstaka virkjunarkosti sem áður klufu þjóðina í herðar niður. Hún færir okkur nær faglegri ákvarðanatöku og fjær pólitískum duttlungum.

Verður öflugt umhverfis- og auðlindaráðuneyti áfram starfrækt? Eða verður það smættað niður eins og nýr umhverfis-, auðlinda-, sjávarútvegs- og landbúnarráðherra hefur léð máls á? Og sést líka ákveðinn vilji, af hálfu ríkisstjórnarinnar, í þeirri staðreynd að ekki er sérstakur ráðherra sem gegnir þeirri mikilvægu stöðu að gæta hagsmuna umhverfisins? Umhverfismálin eru núna skúffa í skrifborði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem býður þeirri hættu heim að tortryggni og efasemdir muni ríkja um stjórnsýslulegar ákvarðanir og hverra hagsmuna sé gætt hverju sinni.

Hér er svo margt í húfi, ekki bara hið einfalda og augljósa mikilvægi þess að umhverfið eigi sér öflugan málsvara í stjórnkerfinu og pólitíkinni, heldur líka ímynd okkar út á við, að í landi sem byggir megnið af sinni afkomu á því að selja hreinleika íslenskra afurða til útflutnings og ferðamönnum aðgang að okkar stórbrotnu ósnortnu náttúru, að í jafn náttúruríku landi sé ríkisstjórn þar sem ráðherra láti sér detta í hug að ráðuneyti umhverfis- og auðlindamála geti verið óþarft. Það mun vekja á okkur vafasama athygli víða um heim og tefla jafnvel útflutningshagsmunum okkar í hættu.

Nú berast fréttir af því að á síðasta ári hafi aldrei frá upphafi iðnbyltingar verið losað jafn mikið af koltvísýringi og á síðasta ári í heiminum. Við eigum að sýna metnað til að vera leiðandi í umræðu og athöfnum á sviði umhverfismála en ekki athlægi. Þess vegna þurfa svörin að vera skýr.

Ég tel það algert glapræði ef draumur ráðherrans um að leysa umhverfisráðuneytið upp verður að veruleika. Og gegn því munum við þingmenn Samfylkingarinnar berjast af öllu afli.

Fleiri mál eru í pólitísku uppnámi vegna nýrrar ríkisstjórnar og ráðherra hennar, svo sem bygging nýs Landspítala, jafnréttismálin og jafnlaunaátakið og Evrópusamstarfið og hvort og þá hvenær haldin verði atkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna eins og meiri hluti þjóðarinnar hefur kallað eftir.

Góðir landsmenn. Á komandi kjörtímabili skiptir miklu máli að áfram verði haldið á braut jafnaðar í samfélagi okkar. Með þrepaskiptu skattkerfi tókst ríkisstjórn undir forustu Samfylkingarinnar að lækka skatta á þá sem lægstar höfðu tekjurnar á meðan skattar á hæstu sjö prósentin voru hækkaðir. Við endurdreifðum skattbyrðinni á sanngjarnari hátt en áður hefur þekkst hér á landi. Og með þessu tókst ríkisstjórn undir forustu okkar jafnaðarmanna það sem engri ríkisstjórn í kreppu hefur tekist hingað til; að standa vörð um þá sem minnst hafa. Auðvitað hefðum við viljað ganga lengra en við gengum eins langt og efni leyfðu.

Það skiptir því máli að samkomulag verði um það hvernig svigrúmið sem skapast mun í ríkisfjármálum verður nýtt á komandi kjörtímabili. Þar verður velferðarkerfið að vera í forgangi. Öflugt velferðarkerfi er undirstaða okkar samfélags og heiti ég á hina endurlífguðu ríkisstjórn hægri flokkanna að hvað sem líður átökum og rökræðum um önnur mál að slíta aldrei í sundur friðinn um eitt velferðarkerfi, óháð efnahag og stöðu.