142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:22]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Góðir Íslendingar. Ég las grein í blaði um daginn. Maður nokkur var að skilgreina núverandi ríkisstjórn og hverju mætti búast við af hennar hálfu á komandi kjörtímabili. Honum leist ekki á blikuna — enda glöggur maður. Hann minnti á að nýafstaðnar kosningar hafi snúist mest um skuldavandann og því væntingar mestar hvað varðar lækkun höfuðstóls lána. Ég held að þetta hafi verið rétt hjá honum og forsætisráðherra staðfesti þennan skilning í ræðu sinni hér áðan þótt það kæmi mér óþægilega á óvart að hvergi bólaði á lausnum í ræðu hans. Það væri ekki bara slæmt fyrir þessa ríkisstjórn heldur væri það afleitt fyrir lýðræðið í landinu ef þarna fæddist mús eða töfrabrellur viðhafðar. Það á ekki að gerast að stjórnmálamenn séu kosnir til valda á fölskum loforðum. Með efndunum verður því fylgst.

En aftur að fyrrnefndri blaðagrein. Þar segir, með leyfi forseta: „Við þessi umskipti hræðist ég mest að sá árangur og sú viðhorfsbreyting sem hefur orðið í umhverfismálum verði að engu höfð, nú verði gengið til verka líkt og fyrir hrun og að hernaður gegn landinu nái nýjum hæðum. Stóriðjublindan er ekki læknuð.“

Það er reyndar margt annað sem ekki er læknað og var orsakavaldur mesta efnahagshruns Íslandssögunnar. Það er tímanna tákn að í sömu viku og ríkisstjórnin var mynduð kom út fyrsta tölublað Kauphallarblaðsins sem svo er nefnt. Á forsíðu var boðuð kynning á því sem blaðið kallaði matseðil fjárfestanna og þar var einnig vísað í umfjöllun um hagstæð lán til hlutafjárkaupa auk gamalkunnugs stefs um hvernig verslun og brask í Kauphöllinni örvi framleiðni vinnuafls og leiði til betri lífskjara.

Allt þetta rímar bærilega við tal nýrra ráðherra sem þegar á fyrstu dögunum eru farnir að tala um einfaldara Ísland nákvæmlega eins og talað var í aðdraganda hrunsins þegar til stóð að setja lög sem örvuðu lífeyrissjóði að fjárfesta í vogunarsjóðum. Líka það átti að verða auðveldara og einfaldara. Á daginn kom að einfaldara Ísland var ekki hin einfalda lausn heldur einfeldningsháttur af verstu sort.

Hið óhugnanlega er hins vegar að það er auðveldara að rífa Ísland upp á þessari bóluaðferðafræði en hinni sem við völdum: Að stuðla að langtímauppbyggingu grundvallaða á fjölbreytni og varanleika.

Einfalda lausnin — einfeldningshugsunin — er að spýta í með stórvirkjunum og stóriðju þar sem eitt rekur annað, krónan styrkt um stundarsakir, þensla og streymi í ríkissjóð tryggð um stundarsakir, lífskjör batna um stundarsakir og svo þegar slaknar á þarf nýja innspýtingu, fórna fleiri náttúruperlum, byggja fjórbreiða vegi að kröfu verktakasambandsins og þannig áfram koll af kolli þar til aftur verður hrun.

Hér bind ég helst vonir við vakningu í verkalýðshreyfingunni, að hún hristi af sér slyðruorðið, hverfi af þeirri braut sem hún hefur verið á í allt of ríkum mæli, oftar en ekki nánast samhljóða atvinnurekendasamtökunum í ákalli um stóriðju og vegtolla fyrir fjórbreiðu vegina, jafnvel einkavæðingu. Ég á þá ósk verkalýðshreyfingunni til handa að hún gangi í endurnýjun lífdaga og freisti þess að næra grasrót sína að hætti náttúruverndarsamtakanna.

Og þar kem ég aftur að blaðagreininni góðu því þrátt fyrir áhyggjur og varnaðarorð kveður þar við ákveðinn bjartsýnistón. Röksemdafærslan er þessi: Ríkisstjórnin hefur 51% greiddra atkvæða á bak við sig. Það er naumur meiri hluti. Nokkur framboð komust ekki inn á þing. Atkvæðin þar á bak við eru þó ekki dauð fremur en atkvæðin á bak við stjórnarandstöðuna í þeim skilningi að fólkið að baki þessum atkvæðum er vel lifandi, með ríkar skoðanir og baráttuvilja. Þegar öllu er á botninn hvolft er í öllum flokkum ágætisfólk sem vill passa upp á landið okkar. Greinarhöfundur klykkir út með því að segja að skilningur á verðmætum náttúrunnar sé orðinn slíkur á Íslandi að óafturkræf náttúruspjöll verði aldrei þoluð. Þetta er hárrétt. Við sáum hvað gerðist 1. maí þegar þúsundir mættu með græna fána, án efa fólk úr öllum stjórnmálaflokkum, staðráðið í að passa upp á náttúruperlur Íslands. Þess vegna segi ég: Þótt þið hafið meiri hluta á bak við ykkur í augnablikinu þá munuð þið aldrei komast lengra en þjóðin leyfir.

Stjórnmál snúast um hið gerlega og sem betur fer hygg ég að það sé rétt hjá greinarhöfundinum ívitnaða að skilningur þjóðarinnar á verðmætum náttúrunnar sé orðinn slíkur að hann leyfi ekki fleiri lífvana Lagarfljót.

Á komandi þingi verður vonandi tekist málefnalega á. Okkur mun greina á um ýmis grundvallarefni. Núverandi stjórnarflokkar hafa staðið vörð um óbreytt kvótakerfi og vildu ekki festa eignarhald á vatni og öðrum auðlindum í þjóðareign. Spurt er: Verður þetta svo á komandi kjörtímabili? Á það mun reyna.

Og nú bankar Nubo upp á að nýju. Hann og hans líkar hafa frétt af stjórnarskiptum á Íslandi. Aftur er spurt: Verður hlustað eftir vilja þjóðarinnar? Ef það verður gert þá kvíði ég engu.

Ég fagna því ef hægt er að finna leiðir til að leiðrétta það skuldahögg sem hluti almennings varð fyrir í kjölfar hrunsins, ef hægt er að gera það með sanngjörnum hætti og hef ávallt stutt slíka hugsun. En það þýðir ekki að þjóðin vilji láta rífa niður velferðarkerfi fjármagnað úr sameiginlegum sjóðum eða að fjármagninu verði leyft að gleypa auðlindirnar og landið okkar.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð var stofnuð um jöfnuð og velferð og það ætlum við að verja á komandi kjörtímabili og ásamt þjóðinni munum við standa vörð um landið okkar, Ísland, sem státar af einhverri fegurstu náttúru á jarðríki. Hana má ekki eyðileggja. — Góðar stundir.