142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Kæri þingheimur. Ég óska nýrri ríkisstjórnar velfarnaðar sem og okkur þingmönnum í störfunum fram undan. En ég verð að segja að þegar ég las stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra varð ég fyrir miklum vonbrigðum eins og þegar samstarfsyfirlýsing flokkanna leit dagsins ljós.

Hæstv. forsætisráðherra sagði við umræður um stefnuræðu forvera síns síðastliðið haust, með leyfi forseta:

„Góðir landsmenn. Ekkert fæst fyrir ekkert.“

Það samrýmist ekki alveg því sem sagt var í kosningabaráttunni af hálfu Framsóknar.

Í stefnuyfirlýsingu flokkanna og í ræðu hæstv. ráðherra birtast tæplega vonir fyrir þá landsmenn sem ákváðu að fela þessum flokkum umboð sitt. Textinn getur vart orðið loðnari um jafn stórt kosningaloforð og ekki bætir ræða hæstv. ráðherra nokkru við. Í stefnuyfirlýsingu flokkanna er að finna orðalag eins og „að öllum líkindum“, „heldur þeim möguleikum opnum“, „æskilegt er“ og í aðgerðaáætlun sem boðuð er á að fjalla um undirbúning almennrar skuldalækkunar. Allt er það á sama grunni: Engar beinar tillögur og engar lausnir.

Með stefnuyfirlýsingunni er búið að setja skulda- og lánamál heimilanna ásamt ríkisfjármálaáætluninni í fullkomið uppnám. Búið er að lofa stórkostlegum aðgerðum í skuldamálum upp á mörg hundruð milljarða án þess að útskýra hvernig á að gera það. Það eru einungis stórkarlalegar lausnir í boði í formi þess að ráðast í orkufreka stóriðju og taka upp stefnu fyrri hægri stjórna í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Í ræðu sinni óskar hæstv. forsætisráðherra eftir aðstoð stjórnarandstöðunnar til að uppfylla hið stóra loforð sem gefið var í kosningabaráttunni af þeirra hálfu. Við erum ekki fylgjandi sömu hugmyndafræði og stjórnarflokkarnir og því getum við vinstri græn ekki orðið ábyrg fyrir tillögum meiri hlutans ef ríkisstjórninni er alvara með að fela þverpólitískum hópi að vinna svona vinnu, ekki tveimur flokkum.

Þó að fagna beri þeim áherslum sem fram koma í ræðu hæstv. forsætisráðherra um áframhaldandi öflugt markaðsstarf og kröftuga uppbyggingu á helstu ferðamannastöðum landsins þá virkar það ekki trúverðugt þegar fjöldi tillagna liggur fyrir sem allar gera ráð fyrir tekjuskerðingu ríkissjóðs.

Ánægjulegt er að ekki verður hróflað við strandveiðikerfinu eða öðrum byggðatengdum aðgerðum sem fyrir eru í lögum um stjórn fiskveiða. En um leið verð ég að minnast á að afnema á veiðigjaldið og hugmyndafræðina á bak við það sem mér hugnast ekki. Sátt um sjávarauðlindirnar næst ekki fyrr en eignarhaldið verður skýrt í stjórnarskrá en núverandi stjórnarflokkar lögðust af alefli gegn því á því þingi sem var að ljúka.

Hæstv. forseti. Varðandi heilbrigðismálin þá er það hálfhjákátlegt að þeir flokkar sem skrúfuðu fyrir fjárframlög til endurnýjunar á tækjakosti opinberu sjúkrahúsanna skuli nú leggja áherslu á hið gagnstæða, nema þeir séu að tala um einkastofurnar. Ástæða þess að heilsugæslan var moluð niður var að opnað var fyrir beina leið frá sjúklingi til sérfræðings án viðkomu á heilsugæslunni í ráðherratíð Framsóknar í heilbrigðisráðuneytinu.

Ég get heldur ekki orða bundist þegar gera á úttekt á starfsumhverfi skapandi greina, en fyrir liggur afar ítarleg úttekt frá því í október á síðasta ári og finna má á vef menntamálaráðuneytisins. Það hlýtur að mega notast við það sem þar kemur fram.

Í stefnuyfirlýsingunni er talað um „framtíðarsýn og mótun menntastefnu“. Ég minni á að gerðar voru nýjar aðalnámskrár fyrir öll skólastig á síðasta kjörtímabili. Stytta á nám á háskólastiginu. Ég spyr: Hvar? Í leikskólanum, grunnskólanum, framhaldsskólanum? Hvaða dyggðir er verið að tala um að rækta með þjóðinni og hvernig á að gera það? Það eru margar spurningar sem liggja í loftinu eftir lestur þessara tveggja stefnuplagga.

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Af því að ég er rífandi bjartsýn og hef mikla trú á fólki til samvinnu og samstarfs þá treysti ég því að breyting verði á komandi kjörtímabili. Breytt vinnubrögð alþingismanna eiga við um alla þá sem hér sitja, það á ekki einungis að snúast um að vera samstaða og sátt um stefnu ríkisstjórnarinnar.

Við vinstri græn munum veita harða en málefnalega stjórnarandstöðu. Við munum ekki draga þingið niður eins og gert var hér síðastliðin fjögur ár en við munum taka fast á þeim málum sem boðuð hafa verið m.a. í umhverfis- og skattamálum og að sama skapi standa með þeim góðum málum sem falla að stefnu okkar. Ég vona svo sannarlega að árangur þessa þings endurspegli væntingar almennings til þess. — Góðar stundir.