142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[22:02]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ástkæru landsmenn. Við erum hér samankomin á nýkjörnu Alþingi. Þetta þing hefur það fram yfir öll önnur þing að það hefur framtíðina fyrir sér. Þetta þing hefur það umfram öll þing sem setið hafa hingað til að eiga möguleika á því að verða besta þing sögunnar, enda er fyrri þingum lokið en við erum hér á fyrstu metrunum. Hvernig sagan á eftir að dæma þetta þing er óvíst en það er víst að það verður ekki afstaða himintunglanna ein eða duttlungar guðanna sem hafa allt um það að segja. Það er þingið sjálft sem ávinnur sér einkunn með störfum sínum og það sama á við um nýja ríkisstjórn sem ég óska alls góðs.

Í stefnuræðu sinni vék hæstv. forsætisráðherra að skuldamálum heimilanna og fjárhagslegum forsendubresti sem þarf að leiðrétta. Það er mikilvægt að muna að það hafa fleiri upplifað brostnar fjárhagslegar forsendur en skuldarar. Það hafa til dæmis leigjendur, öryrkjar og aldraðir, svo einhverjir hópar séu nefndir, einnig gert í formi hærri gjalda samfara lækkandi kaupmætti. Ég brýni ríkisstjórnina að undanskilja ekki suma hópa í aðgerðum sínum og viðleitni. Forsendubresturinn er víða.

Árið 2008 varð eiginlega allsherjarforsendubrestur í íslensku samfélagi. Sá forsendubrestur var ekki bara fjárhagslegur. Hann skók langflestar stofnanir samfélagsins og við glímum enn við afleiðingar þessa forsendubrests í stóru sem smáu og stærstu verkefni næstu missira verða áfram að glíma við þær. Ein alvarlegasta afleiðingin er það hrun sem orðið hefur á trausti í samfélaginu; trausti milli stofnana, milli almennings og stofnana hins opinbera, milli atvinnulífs og yfirvalda, yfirvalda og stofnana og milli fólks almennt. Hvar sem borið er niður sjáum við merki um óöryggi og vantraust. Traust á Alþingi hefur ekki verið svipur hjá sjón og gjarnan er talað um að hefja verði virðingu þingsins upp að nýju. Traust og virðing er ekki eitthvað sem hægt er að panta sér eða skipa fyrir um. Traust þarf maður að ávinna sér. Hér höfum við verk að vinna og það verður ekki gert nema með því að Alþingi sýni virðingu í störfum sínum.

Sá sem hér stendur leyfir sér þann galgopaskap að vera bjartsýnn í upphafi þings. Á dögunum sótti ég alþjóðlega ráðstefnu um höfundarrétt í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Ráðstefna þessi var stórmerkileg og þar áttu sér stað ótrúlegir hlutir, en hér ætla ég að segja frá nokkru sem gerðist í almenningsgarði á hlaupum á milli funda. Á bekk einum sat óárennilegur umrenningur eða heimilislaus maður sem aðrir vegfarendur tóku sveig fram hjá. Þarna sat hann með úfið hár og skegg í gauðslitnum, húðlitum æfingagalla með stolið nafnspjald um hálsinn. Hann náði athygli þess sem hér stendur og þegar við tókum tal saman ruddi hann upp úr sér romsu af skammstöfunum sem flestar voru óþekktar ef ekki óskiljanlegar. Þingmaðurinn gaukaði einhverjum smápeningum að manninum og hélt áfram för sinni en þá kallaði gaurinn í kveðjuskyni, í lauslegri þýðingu, með leyfi forseta: Það er íkorninn sem dansar á trjátoppunum en ekki bjarndýrið.

Þessi furðulegu skilaboð eru mér ofarlega í huga við upphaf þings. Það hefur oft betri áhrif að sýna mýkt og sveigjanleika en að ryðjast áfram af krafti og með látum. Við fyrstu sýn er bjarndýrið tignarlegt, vöðvastælt og kraftmikið dýr en það kemst ekki á efstu toppa trésins. Við fyrstu sýn virðist íkorninn hlaupa stefnulaust fram og til baka eins og vitstola einfeldningur en það er ekki heldur svo einfalt. Íkorninn hefur skýr markmið, hann er að safna forða fyrir veturinn og öll hans taugaveiklunarlega iðja þjónar því markmiði.

Hv. þingmenn. Tökum íkornann með sinni iðjusemi og útsjónarsemi okkur til fyrirmyndar frekar en þunglamalegt valdabrölt bjarnarins. Í leikriti sínu Romanoff og Júlía lagði Peter Ustinov eftirfarandi orð í munn einnar persónu sinnar, með leyfi forseta: Guð hjálpi þeim sem heillast af hagfræðitölum hveitiframleiðslunnar en staldra ekki við til að dást að kornaxinu.

Þótt peningar falli vissulega ljúfar ofan í reiknilíkön og prósentur en aðrir þættir mannlífsins þá skipta aðrir hlutir ekki síður máli. Kærleikur, virðing og mannréttindi eru ekki síður mikilvæg og ber að hafa það hugfast í störfum bæði þings og ríkisstjórnar. Höfum það hugfast að við vorum ekki bara kosin til þess að taka ákvarðanir og fara með völd heldur til þess að þjóna almenningi í landinu. Gerum það. Verum góð.