142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

jöfnuður í ríkisfjármálum.

[13:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegur forseti. Í stefnuræðu í gærkvöldi boðaði hæstv. forsætisráðherra okkur skynsemisstefnu í rekstri ríkisins, að ná tökum á verðbólgunni, greiða niður skuldir og efla efnahagslífið. Ég get tekið undir þau markmið en vandinn er sá að erfitt er að sjá þeim markmiðum stað í verkum nýrrar ríkisstjórnar.

Fjármálaráðherra talar nú fyrir því að hann horfi fram á vaxandi gat í ríkisútgjöldum í rekstri ríkissjóðs en allt er það eitthvað sem vitað var fyrir — Íbúðalánasjóður og hefðbundnir liðir sem allir þekkja. Maður kemst ekki hjá því að velta því fyrir sér hvort hér sé komin afsökun fyrir hallarekstri og skuldasöfnun ríkissjóðs þegar horft á það að fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar á sviði ríkisfjármála boða ekki gott.

Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gefur því frumvarpi sem hér verður rætt á eftir, um breytingar á virðisaukaskatti, algera falleinkunn og segir að gera verði ráð fyrir því að afkoma ríkissjóðs versni í sama mæli vegna þess að ekkert liggi fyrir um aðrar aðgerðir eða nýjar ráðstafanir til að vega upp á móti þessum breytingum. Því muni markmiðið um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs færast fjær.

Það eru skilaboð fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins til ríkisstjórnarinnar um verk hennar í dag. Og hvað vitum við annað? Hvað annað er búið að boða? Jú, afnám auðlegðarskatts á 5 þús. eignamestu Íslendinganna, lækkun skatta á Landssamband íslenskra útvegsmanna og svo hringl í virðisaukaskattskerfinu sem mun væntanlega draga úr tekjuöflunargetu ríkissjóðs. Svo boða menn aukin útgjöld.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Er ríkisstjórn hans gersamlega búin að gefast upp á markmiðinu að skila hallalausum fjárlögum? Ætla menn strax að hætta við að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á næsta ári?