142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

jöfnuður í ríkisfjármálum.

[13:33]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er svolítið erfitt að henda reiður á skoðunum hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Hann er nýbúinn að greina vanda flokks síns m.a. út frá því að flokkurinn hafi ekki hagað sér skynsamlega á allan hátt í ríkisstjórn og ekki hvað síst við stjórn efnahagsmála. Hv. þingmaður var sá sem ég hélt að hefði kannski haft einna mestar efasemdir um ofurskattlagningarstefnu fyrrverandi ríkisstjórnar, að minnsta kosti hefur hann lýst efasemdum um ýmsa skattlagningu sem sú ríkisstjórn réðst í. Nú kveður við annan tón og hv. þingmaður telur að það feli í sér hreint tap fyrir ríkið ef skattar eru lækkaðir eða komið er á meiri skynsemi í innheimtu skatta.

Með sömu rökum hljótum við að álykta sem svo að ríkið gæti aukið tekjur sínar út í hið óendanlega með því að leggja á alls konar nýja skatta. Ef það er orðið hreint tap að mati hv. þingmanns að afnema skatt sem mæltist mjög illa fyrir og bent var á að hefði þau áhrif að draga úr tekjum ríkisins til lengri tíma litið með því að fækka ferðamönnum og gera Ísland að síður áhugaverðum kosti fyrir ferðamenn — afnám hans fjölgar þá vonandi ferðamönnum og eykur tekjurnar — hljótum við að gera ráð fyrir að hv. þingmaður muni í framhaldinu reyna að bæta úr og auka tekjur ríkisins með því að leggja fram stríðan straum af frumvörpum um skattahækkanir, halda áfram arfleifð síðustu ríkisstjórnar um að finna stöðugt upp nýja skatta í von um að bæta við þessar — hvað komst það í? — tvö hundruð breytingar á skattkerfinu sem síðasta ríkisstjórn afrekaði. Var það til þess fallið að auka tekjur ríkisins? Var það til þess fallið að búa til betri stöðu fyrir þá ríkisstjórn sem tók við? Nei, það var það nefnilega ekki eins og við sjáum nú á mati fjármálaráðuneytisins á horfum ekki bara á þessu ári, sem eru tífalt verri en ríkisstjórnin gerði ráð fyrir í fjárlögum, heldur horfum næstu ára líka sem kalla á breytta stefnu, kalla á skattkerfi sem er til þess fallið að ýta undir verðmætasköpun, auka tekjur þjóðveldisins og breikka skattstofna þannig að tekjur ríkisins af sköttum aukist til lengri tíma litið.