142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

aðildarviðræður við ESB.

[13:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Það er gaman að við fyrrum félagarnir skulum vera hér saman í mínu fyrsta svari til hv. þingmanns sem ráðherra. Mér þykir vænt um að þingmaðurinn skuli auðsýna mér þann heiður. (Gripið fram í.) Ég veit það, hv. þingmaður.

Þingmaðurinn spyr um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ég vil fyrst segja að skoðanir eru vitanlega skiptar um það hvernig þessar viðræður hafa í sjálfu sér gengið. Stærstu kaflarnir eru í raun eftir, við vitum ekki opnunarskilyrði Evrópusambandsins í ákveðnum köflum o.s.frv. Töluverð vinna er því eftir að mati þess sem hér stendur.

Það er líka augljóst að farið var af stað í þessar viðræður á afar veikum grunni. Ekki var beinlínis samkomulag á milli þeirra stjórnarflokka sem lögðu af stað í þá vegferð alla saman. Þetta virðast fyrst og fremst hafa verið einhvers konar samningar milli þeirra flokka um að fara af stað, ekki að menn hefðu tiltrú á ferlinu öllu saman. Þar af leiðandi er ekki hægt að segja að ferlið hafi verið byggt á mjög traustum grunni og verið til þess fallið að telja í það minnsta Evrópusambandinu, held ég, trú um að þarna fylgdi hugur máli.

Ég hef hins vegar — og vona að hv. þingmaður hafi tekið eftir því — reynt að forðast að ræða þetta mál mjög mikið fyrr en ég er búinn að fara erlendis og hitta ráðamenn hjá Evrópusambandinu til að útskýra fyrir þeim afstöðu nýrrar ríkisstjórnar. Ég hef talið það kurteisi að gera það, ég hef talið að það væri heppilegra fyrir framhald samskipta við Evrópusambandið og Evrópuþjóðirnar, því að sjálfsögðu ætlum við að eiga gott samstarf, bæði við Evrópusambandið og aðrar Evrópuþjóðir. Ég get því ekki og ætla ekki að upplýsa hv. þingmann um það hvort ég ætli að styðja þessa hugmynd eða þá tillögu sem hér er einhver keppni um að leggja fram. Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um að þjóðaratkvæðagreiðsla er orð sem kemur fyrir í stjórnarsáttmálanum og þar stendur að ekki verði haldið lengra án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Engin tímasetning er á þeirri tillögu.