142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

örorkumat.

[13:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að óska hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra velfarnaðar í starfi og gæfu.

75% örorkumatið hefur verið við lýði á Íslandi síðan 1946, það er 67 ára gamalt og er að komast á eftirlaun. Þetta mat veldur því að fólk getur ekki endurhæfst. Öryrki sem er með fullar örorkubætur og er 75% öryrki, ef hann er metinn 74% öryrki fengi hann bara örorkustyrk sem er sáralítill. Hann tapar svo miklu við það að það er enginn hvati fyrir hann að hætta að vera öryrki.

Í öðru lagi hindrar þetta virkni öryrkja, vegna þess að ef menn vinna með örorkunni, sem þeir mega, koma alls konar skerðingar inn í dæmið. Það gerir að verkum að ekki er mikill hvati til að vinna.

Svo er líka nokkuð mikið af fólki sem nær ekki 75% örorkumati og pínir sig áfram í vinnu. Það er kannski með 40%, 50% örorku og er að pína sig áfram þangað til það verður 75% öryrkjar. Þetta er ekki gott kerfi.

Núna er í gangi vinna um að taka upp vinnugetumat og hefur verið um nokkurn tíma, reyndar að mínu frumkvæði, þar sem metin er geta mannsins til að vinna, hann megi vinna það að fullu án skerðinga og fái svo örorkulífeyri í hlutfalli við restina.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist láta þetta mikilsverða mál til sín taka og brýni hana jafnframt til þess.