142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

örorkumat.

[13:55]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir fyrirspurnina.

Á ársfundi Tryggingastofnunar nefndi ég sérstaklega hið svokallaða starfsgetumat versus örorkumatið og talaði um að mikil og góð vinna hefði farið fram um að skoða möguleikann á því að breyta því hvernig örorka er metin. Þar sagði ég að ég hefði í hyggju að halda áfram þeirri vinnu. Ég vonast svo sannarlega eftir góðu samstarfi við hv. þm. Pétur Blöndal um það og einnig við aðra þingmenn á Alþingi. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að horfa til þess hvað hver og einn getur lagt fram til samfélagsins, hvað hver og einn getur unnið frekar en að við horfum á það sem fólk getur ekki gert.

Eins og hv. þingmaður nefndi er í starfsgetumatinu einmitt verið að horfa til líkamlegra, andlegra og félagslegra forsendna hjá viðkomandi einstaklingi. Svarið er því já, það er eitthvað sem ég hef í hyggju að vinna áfram að og hef mikinn áhuga á því.