142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

örorkumat.

[13:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það gleður mig að menn ætli að halda áfram þessari vinnu. Ég brýni ráðherrann áfram til hraðra vinnubragða. Það er búið að taka allt of langan tíma að breyta þessu. Ég veit að það þarf hugrekki til. Ég býst við því að hæstv. ráðherra hafi hugrekki til að breyta þessu.

Þetta þýðir í reynd að maður sem er metinn segjum 38% virkur en 62% öryrki má vinna 38% af fullu starfi, fær full laun fyrir 38% starf og þau verða ekki skert, síðan fengi hann 62% af örorkulífeyri. Fyrir utan þetta fengi hann að sjálfsögðu öll tæki og tól sem hann þarf til þess að starfa og halda lífi sínu áfram. Ég tel að það sé mjög brýnt að koma þessu á til að virkja þann stóra hóp manna sem eru öryrkjar í dag.