142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[14:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar fjölmörgu spurningar. Þetta minnir mig á manninn sem sagt var við að hann mætti bera fram eina spurningu, en þá sagði hann að hún væri í 20 liðum. Ég ætla að reyna að fara í gegnum þetta.

Kannski er bara einfaldast að svara þessu á þann veg að ég geri ekki ráð fyrir að nefndin sem mun vinna þessa úttekt verði skipuð pólitískum fulltrúum. Ég hyggst leita eftir sérfræðingum á ýmsum sviðum til að fara í gegnum þetta, er jafnvel að skoða hvort erlendar stofnanir geta að einhverju leyti komið að þessu, fræðistofnanir eða eitthvað slíkt. Það er sú hugsun sem er í gangi. Ég vil ítreka að ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um þetta, verið er að vega þetta og meta. Það er mikilvægt að vanda til verka.

Skýrslan frá því í apríl er að sjálfsögðu til. Hún lýsir stöðunni eins og hún er varðandi viðræðurnar. Það kann að vera að við yfirferð viljum við fá frekari útlistanir á ákveðnum köflum í henni. Þetta erum við að skanna í dag, hvort eitthvað er þannig vaxið í því.

Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um að vandað verður til verka varðandi það mat sem við ætlum að leggja á þróun Evrópusambandsins og framtíð þess. Það er nákvæmlega það sem stendur í stjórnarsáttmálanum að eigi að gera, þ.e. að reyna að átta sig á því hvernig þetta samband geti litið út í framtíðinni og setja á blað hver þróun þess hefur verið frá því að við sóttum um.

Við vitum það öll sem erum hér í þessum sal að Evrópusambandið er í dag allt annars konar samband en það var þegar ferlið hófst. Miklir efnahagsörðugleikar hafa verið þarna og gagnrýni í mörgum ríkjum varðandi lýðræðisþróun og ýmislegt annað sem tekið hefur miklum breytingum frá því farið var af stað í þetta ferli.