142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að sá sem talaði sé sá sami hv. þm. Árni Páll Árnason og var að flytja frumvarp og leggja fram hér á þinginu um slysatryggingar almannatrygginga sem munu hafa í för með sér aukin útgjöld, a.m.k. til skamms tíma, fyrir ríkið. Mér finnst þeir ekki hafa sterkan málstað sem koma hingað upp, í kjölfar þess að skila ríkissjóði með um 30 milljarða verri afkomu en að var stefnt á yfirstandandi ári, með útgjaldafrumvörp og gagnrýna síðan nýviðtekna ríkisstjórn fyrir að reyna að vinda ofan af skattaákvörðunum sem menn fallast á að hafi verið illa ígrundaðar, ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi, og segja að það skorti mótvægisaðgerðir.

Hvar eru hugmyndir þeirra sem eru nýhorfnir frá stjórninni um að bregðast við vegna þess að tekjuforsendur ýmissa útgjalda sem þeir hafa nýlega kynnt til sögunnar eru brostnar? Arður er ekki að skila sér, sala eigna er ekki að skila sér, hagvöxtur minni og svo framvegis.