142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var svo sem ekki við öðru að búast en það kæmu fram mjög ólík sjónarmið og ólík sýn væri á það hvernig við eigum að haga skattlagningunni í landinu þegar við förum að ræða þau í þingsal.

Við erum einfaldlega þeirrar skoðunar að það hafi verið óráð hjá fyrrverandi ríkisstjórn að grípa til þess að hækka þennan skatt til að standa undir ýmsum útgjöldum sem menn vildu grípa til í aðdraganda kosninga. Við ætlum að lækka hann aftur. Það er svo einfalt.

Ef menn vilja ræða við fjármálaráðherra um það hvernig við lokum fjárlagagatinu þá er það miklu stærri umræða en bara um hækkun virðisaukaskatts á gistinætur í landinu. Þá skulum við ræða um ýmis útgjaldaáform fráfarandi ríkisstjórnar sem koma til framkvæmda á næstu mánuðum jafnvel og missirum. Margt af því var ákveðið með vísun í sérstakar sértekjur sem áttu að skila sér en eru ekki að skila sér. Við ættum kannski að efna til sérstakrar umræðu í þinginu til að ræða það hvernig eigi að bregðast við vegna þess gats sem fráfarandi ríkisstjórn skildi eftir.