142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frá því að þessi ríkisstjórn tók við hafa menn gengið ansi langt í því að halda því fram að hér sé allt miklu, miklu verra í stöðu ríkissjóðs en við var að búast og kynnt hafi verið og hér séu að koma upp á borðið endalausar nýjar upplýsingar um hver staðan raunverulega er.

Virðulegi forseti. Síðan hafa menn ekki svarað neinu um það hvað þarna er á ferðinni, hvað menn eru raunverulega að ræða um, fyrr en í gær þegar hæstv. fjármálaráðherra kom með nokkur dæmi í stefnuræðu sinni. Þar nefndi hann Íbúðalánasjóð, 13 milljarða. Ég er með fréttir fyrir hæstv. fjármálaráðherra: Það var ítarlega fjallað um þessa 13 milljarða í desember þegar fjárlagafrumvarpið var samþykkt. Engar nýjar fréttir.

Í öðru lagi nefnir ráðherrann 6 milljarða sem gætu orðið umframkeyrsla í ákveðnum stofnunum og ákveðnum fjárlagaliðum. Ég er með aðrar fréttir fyrir hæstv. ráðherra: Það er verkefni ráðherra hverju sinni og hefur alltaf verið að gæta þess að stofnanir þeirra haldi sig við ramma fjárlaga. Þessir 6 milljarðar gætu orðið að veruleika ef þessi ríkisstjórn stendur sig ekki. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Þetta er ekki boðlegur málflutningur.