142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er í raun og veru komið inn á miklu stærra mál en við erum að ræða, sem lið af þessu frumvarpi, þ.e. hvernig við sjáum fyrir okkur skattlagningu á ferðaþjónustu almennt og hvernig við viljum sjá hana vaxa. Mér þætti gaman að taka þátt í þeirri umræðu hvað við getum gert til þess að efla ferðaþjónustuna almennt. Kannski er það svo að ferðaþjónustan skilar einmitt hlutfallslega meiru á Íslandi þrátt fyrir lægri skattprósentu eða skattbyrði, eins og hv. þingmaður kom inn á, en annars staðar vegna þess að við ætlum okkur ekki of stóran hluta af tekjum ferðaþjónustunnar. Kannski er samhengi á milli þess að ferðaþjónustan skilar hlutfallslega meiru hér en í samanburðarlöndunum, sem hv. þingmaður vék að, og þess að sköttunum er stillt í hóf. Ættum við þá ekki bara að halda þeirri stefnu áfram og láta greinina vaxa inn í framtíðina?

Það sem ég sæi fyrir mér sérstaklega í ferðaþjónustunni er að við sköpuðum skilyrði til þess að draga hingað heim ferðamenn sem hver um sig skildi eftir sig meiri tekjur. Ég held (Forseti hringir.) að á einstökum sviðum ferðaþjónustunnar, eins og í ráðstefnuhaldi, sé (Forseti hringir.) mikill óplægður akur enn eftir.