142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í máli hv. þingmanns koma nokkur gamalkunn hugtök fyrir eins og til dæmis að ferðaþjónustan, hótel og gististaðir starfi á einhverri sérstakri undanþágu. Það er ekki undanþága. Þetta er lögfest í virðisaukaskattinum sem gildir um þá þjónustu. Engin undanþága, heldur erum við með tvö virðisaukaskattsþrep, 25,5% og 7%. Við erum ekki að tala um 7% sem einhverja sérstaka undanþágu, það var bara hin lögfesta regla.

Hér er málið nálgast þannig að skattur sem við höfum aldrei haft tekjur af og átti að koma til framkvæmda seinna á þessu ári — ef hann verður felldur niður verðum við af 500 millj. kr. tekjum, tekjum sem við höfum aldrei haft í hendi. Engu að síður voru það áform fráfarandi ríkisstjórnar að hækka skattinn einungis upp í 14%, ekki upp í 25,5%, það átti sem sagt að búa til nýja undanþágu eins og þau hefðu væntanlega séð það sjálf í 14%. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvers vegna var ekki farið alla leið og allar tekjurnar sóttar sem menn töldu að væru innan seilingar ef þeir hefðu bara viljann og kjarkinn til þess að hækka skattinn nógu mikið?

Ég þreytist ekki á að benda á að það eru gestir sem borga skattinn. Það er ekki rétt að tala um þennan skatt sem skatt sem leggst á ferðaþjónustuaðilana. Þetta er skattur sem er greiddur af þeim sem koma og gista á Íslandi. Það skiptir máli fyrir samkeppnisstöðu okkar — sem hv. þingmaður reyndar vék aðeins að og vísaði til sérstakrar skýrslu um — það skiptir máli varðandi samkeppnisstöðuna hvort skatturinn er 7% hærri eða lægri.

Góðu fréttirnar eru þessar: Gistinóttum erlendra gesta fjölgaði um 26% á fyrsta ársþriðjungi þessa árs þannig að tekjurnar af þeim skattstofni óbreyttum munu halda áfram að vaxa í samræmi við fjölda útseldra (Forseti hringir.) gistinátta. Þannig mun ríkið fá hærri tekjur (Forseti hringir.) vegna aukinna umsvifa.