142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem mér finnst skipta máli í þessari umræðu er að við urðum fyrir stórkostlegu tjóni við efnahagshrunið haustið 2008. Við þurftum að grípa til stórkostlegra aðgerða, sársaukafullra í sumum tilfellum. Við þurftum að skera niður í velferðarkerfinu og við þurftum að ná okkur í tekjur í gegnum skattkerfið. Vegna óvissu var ekki farið í það að hækka virðisaukaskatt á hótel- og gistiþjónustu til að byrja með. Ferðaþjónustunni í heild var líka hlíft við breytingum á skatti til að byrja með en auðvitað var horft til hennar.

Það urðu hér tvö eldgos, eins og hv. þingmaður minnti á hér áðan, og var ekki ráðlegt að fara út í skattahækkanir á meðan óvissa ríkti í kringum þau. En núna er það ljóst að við höfum enn mikla þörf fyrir auknar tekjur, við höfum ekki tekið til baka niðurskurð á kjörum aldraðra og sjúkra eða á menntakerfinu, sem þarf nauðsynlega að gera. Þess vegna eigum við ekki að gefa eftir tekjur af grein sem er svo umfangsmikil og svo stór hluti af vergri landsframleiðslu okkar. Það er röng forgangsröðun að byrja á því að taka það til baka.

Áður en við förum að skila skattahækkunum til baka skulum við athuga hvernig staðan er á heilbrigðisstofnunum okkar, í menntastofnunum okkar og hvernig kjör aldraðra og sjúkra eru í þessu landi.