142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:20]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er hægt að harma ýmislegt, það er hægt að fagna ýmsu og það er hægt að minnast margra hluta. Það er hægt að minnast þess þegar hallinn á ríkissjóði var 200 milljarðar. Það var þegar Sjálfstæðisflokkurinn skildi síðast við. Nú erum við að tala um hörmulega aðkomu flokksins að pyngjum ríkissjóðs og vísað í 30 milljarða halla. Við vorum að tala um upphæðir sem eru í grenndinni við 200 milljarða. Það er eins og það gleymist stundum í umræðu bæði hér í þinginu og úti í þjóðfélaginu, og gerði það mjög ákveðið í aðdraganda kosninganna, að Íslendingar voru að ganga í gegnum efnahagshrun og okkur hefur tekist að bæta stöðu ríkisfjármála sem þessu nemur, sem ég tel vera afrek.

Það má vel vera að við höfum í sumum tilvikum gengið of langt í niðurskurði. Ég tel svo vera. Ég tel að við höfum ekki gengið of langt í skattlagningu en nú sjáum við hvernig þessar forsendur og forgangsröðun er öll að breytast. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að ég ætti ekki að gráta þetta með tilliti til þess að ferðamönnum er að fjölga. Vill hann það? Telur hann það vera leiðina til að leiða hagnað af ferðamennsku inn í ríkissjóð að fjölga ferðamönnum? Fá milljón á ári? Er það kostnaðarlaust fyrir Ísland, íslenskt samfélag, íslenska náttúru? Er það æskilegt? Eða getur hann skýrt nánar fyrir okkur hvað hann átti við áðan þegar hann var að tala um að breyta samsetningu á þeim ferðamönnum sem (Forseti hringir.) koma hingað til lands? Hvað á hann við og hvernig ætlar hann með stjórnvaldsaðgerðum að breyta samsetningu ferðamanna? Á að (Forseti hringir.) sortera við hliðin?