142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talaði um það í fyrra andsvari að við ætluðum að afsala okkur tekjum af ferðaþjónustunni í landinu. Það er ákveðið viðhorf sem býr að baki þeim orðum, tekjur sem við höfðum í hendi en við ætlum að afsala okkur. Við erum að falla frá áformum um að hækka virðisaukaskatt á hótel og gistináttaþjónustu. Það er það sem málið snýst um. Já, ég tel að við getum enn bætt við komu ferðamanna til landsins en það er enginn ágreiningur við hv. þingmann um að það skiptir máli að gæta að sjálfbærni ferðaþjónustunnar, að það verði ekki samhliða aukinni ferðaþjónustu, sem sagt komu ferðamanna til landsins, gengið þannig um náttúruna að þjónustan verði ekki lengur sjálfbær. Það er meðal þess sem við ræðum í stjórnarsáttmálanum, að skoða mismunandi leiðir til að taka upp sérstakt gjald svo að byggja megi upp nauðsynlega aðstöðu og þjónustu á þeim stöðum sem eru hvað viðkvæmastir.

Þegar ég ræði um að æskilegt væri að fá aðeins breytta samsetningu á þeim fjölda ferðamanna sem koma til landsins þá vil ég leita leiða til þess að stjórnvöld styðji við áform um fjárfestingu í greininni sem dregur hingað heim ferðamenn í fjölbreyttari þáttum ferðaþjónustunnar. Við getum nefnt í því sambandi sérstaklega ráðstefnuhald þar sem við Íslendingar erum alveg sérstaklega vel staðsettir landfræðilega mitt á milli Evrópuríkjanna, Skandinavíu og Bandaríkjanna, við erum hér norður í höfum. Ísland er spennandi staður til að koma á. Það sem vantar (Forseti hringir.) er aðstaða til að taka á móti öllu því fólki og stjórnvöld eiga að spyrja sig hvað þau geta gert til þess að styðja þá sem veita þjónustuna í því að byggja upp þá aðstöðu.