142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:25]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála því að gleðilegt er að sjá hvernig ráðstefnuhald á Íslandi hefur verið að aukast í seinni tíð. Við skulum ekki gleyma því að þeir sem sækja hingað ráðstefnur fara líka að skoða Gullfoss og Geysi og njóta landsins. En þar þarf að bæta aðstöðuna og til þess að svo megi verða þarf fjármagn og einhvers staðar þarf að taka þá peninga. Á að taka þá af ferðamönnum, ferðaiðnaðinum eða á að skattleggja einstaklingana og fyrirtækin í öðrum greinum beint? Þetta er það sem við erum að ræða um hér.

Hæstv. ráðherra segir að það lýsi ákveðinni afstöðu af minni hálfu að tala um afsal, að við séum að afsala okkur tekjum. Ég er hræddur um að hæstv. ráðherra þurfi að eiga orðastað við embættismenn í fjármálaráðuneytinu, alla vega þá sem sömdu þann texta sem hann hefur borið inn á borð hingað til okkar í þinginu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum er áætlað að ríkissjóður muni verða af tekjum sem nema 535 millj. kr. árið 2013 og verða tekjur ríkissjóðs þá lakari en áætlað var í fjárlögum sem því nemur.“

Og síðar segir, með leyfi forseta:

„Verður því að gera ráð fyrir að afkoman versni í sama mæli og þar með að sama eigi við um framgang markmiðs um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs ef ekki verða gerðar viðeigandi ráðstafanir til mótvægis.“

Er þetta ekki einhver sérstök afstaða sem kemur þarna fram eða er þetta bara raunsæi? Er kannski verið að tala þarna um staðreyndir? Eða ætlar hæstv. ráðherra að eiga sams konar orðaskipti við embættismenn í fjármálaráðuneytinu og hann hefur leyft sér að eiga við mig hér í ræðustól Alþingis?