142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hef töluverðar áhyggjur af þessu frumvarpi og lýsi furðu yfir því að þetta sé fyrsta málið sem ný ríkisstjórn leggur fram á Alþingi. Mér finnst þetta lýsa miklu metnaðarleysi og mjög einkennilegri forgangsröðun. Ný ríkisstjórn lítur á það sem fyrsta verkefni sitt að hætta við hækkun á neyslusköttum á erlenda ferðamenn í ört vaxandi atvinnugrein.

Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein á Íslandi. Hún er vaxandi grein og fólkið sem stjórnar þeirri atvinnugrein og starfar innan hennar hefur sýnt af sér mikinn dugnað og dirfsku. Það hefur verið gríðarlega mikilvægt fyrir okkur eftir hrun að eiga atvinnugrein sem gat brugðist svo hratt við. Þetta var ekki hægt í sjávarútvegi eða áliðnaði, hinum berandi atvinnugreinum okkar. Það var ekki hægt að fara í sömu framleiðsluaukningu og hægt var í ferðaþjónustu. Þetta er mjög mikilvæg atvinnugrein og hefur sýnt mikla vaxtarmöguleika. Það sem er ekki síður ánægjulegt við ferðaþjónustuna er að hún skapar fjölbreytt störf um allt land sem er ekki síður mikilvægt í okkar dreifbýla landi því það hefur oft skort atvinnutækifæri í hinum dreifðari byggðum, ekki síst fyrir konur. Það eru konur á barneignaraldri sem skipta hvað mestu máli fyrir byggðarlög því að þegar þær fara þá hefur yfirleitt sýnt sig að það fækkar mjög í kjölfarið, þannig að ferðaþjónustan er á svo margan hátt mikilvæg fyrir Ísland.

Eins og ég fór yfir í andsvari mínu til hæstv. ráðherra áðan þá er hlutfall ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu 5%, sem er ekkert smáræði, og hún er mun stærri atvinnugrein en ferðaþjónusta annars staðar á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Þýskalandi og jafnvel Frakklandi, því mikla ferðamannalandi.

Ég fór líka yfir það í andsvari að heildarskatthlutfall á fyrirtæki í ferðaþjónustu á Íslandi er ekki nema 25,2% meðan það er í samanburðarlöndunum 33–40%. Mér er það til efs að einhver nauðsynleg þörf sé á þessum mun, af hverju við Íslendingar ættum að verða af skatttekjum sem öðrum þjóðum lætur sér ekki detta í hug að verða af. Ég veit ekki af hverju við ættum að velja það og láta svo einhverja aðra innan lands bera hærri skatta.

Nú er það svo að blómlegt atvinnulíf skiptir máli til að fólk hafi atvinnu, til að skapa verðmæti fyrir samfélagið og síðan þarf að skattleggja allt gúmmelaðið. Að sjálfsögðu á að stilla skattlagningu í hóf. Það leggur enginn á skatta bara til að leggja á skatta. Skattar eru lagðir á til að afla tekna fyrir ríkissjóð, til að greiða fyrir menntakerfið, heilbrigðiskerfið, þau kerfi sem við töluðum öll fyrir í kosningabaráttunni og enginn vogaði sér að segja að aðgangur að þeim ætti að vera háður efnahag. Allir vilja, a.m.k. í orði, að við höfum jafnt aðgengi óháð efnahag. Það kostar og það höfum við verið tilbúin að greiða. Eins eru skattar lagðir á til að fjármagna almannatryggingakerfið, löggæsluna og ýmis fleiri mikilvæg verkefni og á síðari árum eftir hrun vaxtagjöld af skuldum ríkissjóðs sem eru 90 milljarðar á yfirstandandi fjárlagaári.

Hér erum við að ræða um tekjuöflunaráform fráfarandi ríkisstjórnar eftir mjög erfiðan niðurskurð undangengin ár og aukna skattheimtu. Með þessu hefur okkur tekist að ná niður halla ríkissjóðs og í augsýn er að við byrjum að greiða niður skuldir ríkissjóðs til að það dragi úr vöxtunum á skuldunum þannig að við getum notað skatttekjur íslenska ríkisins til að borga fyrir velferð en ekki vexti. Þessi aðgerð var liður í því en hún var líka eðlilegur liður í því að byggja upp heilbrigða atvinnustarfsemi á Íslandi. Við viljum ekki byggja upp atvinnuvegi sem þurfa sérmeðferð svo að þeir geti verið til. Við viljum byggja upp atvinnuvegi sem eru samkeppnishæfir og raunverulega verðmætaskapandi og skila ágóða fyrir íslenskt samfélag.

Við erum að tala um árlegar skatttekjur upp á 1.500 milljónir. Þetta er auðvitað lítið brot af skatttekjum ríkissjóðs en allt þetta telur. Bara til að gefa dæmi, af því að það er oft gott að setja hlutina í samhengi, þá notum við tæplega 1.500 milljarða til að reka Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði, grundvallarþjónustu fyrir það dreifbýla byggðarlag þar sem er yfirleitt ekki hægt að segja að íbúar búi við offramboð á þjónustu. Þetta er fyrir grundvallarþjónustu til að halda byggð á þessu mikilvæga svæði. Við skulum alltaf muna það þegar við tölum um fjárhæðir því að það er svo auðvelt að gleyma því af því að við tölum oft um svo háar fjárhæðir að allt þetta skiptir máli.

Mig langaði að segja varðandi samkeppnisstöðu Íslands að ég er hérna með skýrslu frá Hagfræðistofnun. Hún heitir Áhrif þess að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu og er frá september 2012. Sá annmarki er á þessari skýrslu að hún var gerð með það fyrir augum að hækka virðisaukaskattinn upp í 25,5% eins og áætlanir voru um en hætt var við það og farið niður í 14%. Þar er samt ýmislegt sem er nýtilegt í þessari umræðu. Fram kemur í skýrslunni að samkeppnisstaða Íslands er í ellefta sæti á heimsvísu en áttunda sæti í Evrópu. Það eru þrír undirflokkar í þeirri vísitölu sem metur þetta sem eru lagalegt umhverfi, viðskiptaumhverfi og svo í þriðja flokknum er mannauður, menningarlegur auður og náttúruauðlindir.

Til þess að viðhalda samkeppnishæfni er mannauður, menningarlegur auður og náttúruauðlindir gríðarlega mikilvægur þáttur. Það segir sig sjálft að þegar greinin vex eins og hér hefur komið fram um 18,9% á milli áranna 2011 og 2012 þá þarf að halda vel á spöðunum til að byggja upp innviði svo að landið beri alla þessa ferðamennsku. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á þá þurfum við að fara að ræða það af fullri alvöru — greinin er komin langt á undan stjórnmálamönnum — með hvaða hætti við ætlum að láta þessa grein þróast. Ætlum við að reyna að stemma stigu við of mikilli fjölgun en reyna að fá meiri verðmæti út úr þeim sem hingað koma samhliða auknu framboði af menningar- og náttúrutengdri ferðamennsku með uppbyggingu nýrra svæða, menningarstarfs eða safna og slíks um land allt, sem er auðvitað í miklum blóma? Þegar ferðamönnum fjölgar svona mikið þarf að laga starfsemina að því.

Fram kemur í þessari skýrslu að flestir ferðamenn sem sækja Ísland heim eru með meðaltekjur eða hærri og að sala á dýrari ferðum hefur undanfarin ár aukist í sölu til jafns við þær ódýrari. Landsbankinn dregur þá ályktun að meðalferðamaðurinn sem kemur til Íslands sé ekkert að spara sérstaklega við sig. Þarna eru auðvitað mikil sóknarfæri fyrir okkur.

Ég held að það sé líka rétt að taka fram að fyrrverandi ráðherra iðnaðar og þar með ferðamála, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, lagði mikið upp úr því að efla ferðaþjónustu í samráði við greinina þegar hún var ráðherra, m.a. með átakinu Inspired by Iceland þegar fólk óttaðist að draga mundi úr komu ferðamanna hingað vegna eldgosa en ekki síður með átakinu Ísland allt árið til að dreifa ferðamönnum yfir lengra tímabil yfir árið til að nýta betur fjárfestingar í greininni, það er ekki síður mikilvægt. Til þess að fara í slíka uppbyggingu innan greinarinnar þarf fjármuni. Það þarf fjármuni frá hinu opinbera. Fyrirtækin koma að þessu að ýmsu leyti en varðandi náttúruauðlindir og ýmislegt af menningartengdri ferðaþjónustu þurfa opinberir fjármunir að koma til. Þá þarf skatttekjur til að fjármagna það. Ekki síst eru sveitarfélögin fjársvelt, sveitarfélög sem taka á móti gríðarlegum fjölda ferðamanna en fá engar tekjur í sinn vasa til að byggja upp aðstöðu til að koma í veg fyrir að ómetanleg verðmæti séu eyðilögð vegna fjölda heimsókna. Til lengri tíma litið er það gríðarleg sóun og því skiptir máli að við höfum tekjur til að byggja upp þessar auðlindir.

Ég vil þá segja, af því að hér var ákveðið að lækka virðisaukaskatt á matvæli niður í 7% og á sama tíma náðist þessi lækkun til gistihúsa, að fram kemur í áðurnefndri skýrslu Hagfræðistofnunar að þegar þeir greina þróun á verði gistingar bendir flest til þess að mestur hluti þeirrar lækkunar, sem sagt úr 24,5 niður í 7%, þetta er gríðarleg lækkun á virðisaukaskatti, hafi fallið gistihúsum í skaut en verð á gistingu hafi lítt lækkað. Þegar talað er um að skattahækkanir og skattalækkanir hafi bein áhrif á framboð og eftirspurn þá er jafnan flóknari en svo. Þarna hefur greinin augljóslega ekki skilað því til ferðamanna enda má spyrja sig hvort nokkur þörf hafi verið fyrir það því að þeim fjölgaði, en það var ekki út af því að verðið væri að lækka heldur af því að fjölgun var í straumi ferðamanna hingað.

Ég held að við þurfum líka að muna af hverju verð lækkaði á gistiþjónustu, þ.e. virðisaukaskatturinn árið 2006. Það kom ekki til af sjálfu sér. Það kom til út af því að gengi íslensku krónunnar var svo sterkt að það hamlaði samkeppni í útflutningsgreinum og ferðaþjónusta er jú mikilvæg útflutningsgrein. Þetta sterka gengi hafði þau áhrif. Þetta var liður í því að auka samkeppnishæfnina en gistihúsaeigendur hafa augljóslega metið það svo að þrátt fyrir þetta sterka gengi þyrftu þeir ekki að lækka verð á gistiþjónustu sem nam lækkuninni af skattinum því að þeir vissu að eftirspurnin eftir því að ferðast á Íslandi var svo mikil að fólk var tilbúið að borga vel fyrir þjónustuna. Þess vegna er ég ósátt við þetta frumvarp. Við erum að fórna mikilvægum tekjum fyrir ríkissjóð og það eru engin sérstök rök fyrir því. Greinin mun ekkert líða fyrir þetta. Þetta er neysluskattur á þá ferðamenn sem hingað sækja. Þetta er neysluskattur sem mun verða liður í því að byggja upp innviði til að ferðaþjónusta á Íslandi verði ekki bölvaldur fyrir íslenska náttúru. Við skulum muna að hættumerki eru víða. Við höfum víða gengið of langt og þurfum að hafa varann á okkur.