142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:02]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda á að ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein á landsbyggðinni og hún skiptir gríðarlega miklu máli fyrir byggðir úti um allt land. Við sem stöndum með fjármálaráðherra að þessari tillögu teljum að til lengri tíma litið muni þessi lækkun á virðisaukaskatti hafa jákvæð áhrif og auka tekjur og auka straum ferðamanna út um landið.

Ég hef ekki lesið þær skýrslur sem vitnað hefur verið til en ég vil samt segja að mér finnst gæta ákveðins viðhorfs til ferðaþjónustunnar í máli ræðumanna. Það birtist í því að menn halda því fram að sú hækkun á virðisaukaskatti sem sett var á hafi ekki skilað sér í ríkissjóð og lækkunin orðið eftir hjá gistihúsaeigendum. Ég tel rétt að athuga hvort það er rétt.