142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefur margt áhugavert komið fram í umræðum um þetta mál. Mig langar kannski að tæpa á tvennu sem þó hefur verið nefnt í máli nokkurra þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað.

Í fyrsta lagi er það staða ferðaþjónustunnar almennt. Sú spurning sem við hljótum að spyrja okkur þegar við gerum tekjuáætlanir okkar og saumum saman fjárlög fyrir hvert ár er hvaða atvinnugreinar eru í raun og veru aflögufærar inn í þann samfélagsbúskap sem við rekum hér á landi.

Þá er áhugavert að skoða þá ágætu skýrslu sem var lögð fram á síðasta þingi þar sem gerð er grein fyrir stöðu ferðaþjónustunnar og farið yfir ýmsar lykiltölur og þau verkefni og viðfangsefni sem eru fram undan innan ferðaþjónustunnar. Af því að hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir var að ræða á hverju hlutfall ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu byggði þá kemur það fram í ferðaþjónustureikningum Hagstofunnar, og væntanlega auðvelt að fletta því upp þar, að hlutdeild ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu var orðin tæp 6% árið 2009 og jókst mjög mikið á milli áranna 2008 og 2009, og hlutfall ferðaþjónustu innan lands í heildarútflutningstekjum hefur verið u.þ.b. 14% frá árinu 2008. Þegar umsvifum íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja utan Íslands er bætt við hækkar hlutfall ferðaþjónustunnar í rúm 19% af útfluttri vöru og þjónustu á sama tímabili. Það eru 180 milljarðar, svo að við setjum þessar tölur í eitthvert samhengi.

Það er líka áhugavert að skoða þá aukningu sem hefur orðið í störfum innan ferðaþjónustunnar. Samkvæmt sömu ferðaþjónustureikningum Hagstofunnar voru 8.500 störf í ferðaþjónustu árið 2009, það eru 5,2% af heildarstarfafjölda á landinu, svo að við setjum það líka í samhengi. Nýrri tölur frá Hagstofunni sýna, þó að ekki sé búið að taka saman sérstaka reikninga, að þessum störfum hefur fjölgað enn meira. Það kom til að mynda fram í þingumræðum í fyrra að beinum störfum í ferðaþjónustu fjölgaði um 6,1% á árinu 2011 eða í rúmlega 12.300 manns. Á sama tíma og vinnumarkaðurinn stendur í stað almennt sjáum við þessa miklu fjölgun í ferðaþjónustunni.

Það er auðvitað hægt að ræða ástæður þessa og hagstætt gengi kemur þar svo sannarlega inn sem áhrifaþáttur en við getum líka horft til þess hvaða aðrir þættir hafa þar áhrif. Einhverjir hv. þingmanna hafa nefnt eldgos en við megum heldur ekki gleyma því að hér hefur verið unnið mjög skipulagt og markvisst starf í þágu ferðaþjónustunnar, m.a. í því að lengja ferðamannatímann og skapa forsendur fyrir heilsársferðaþjónustu. Þar nefni ég auðvitað Inspired by Iceland átakið, sem var ráðist í í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli, og síðan verkefnið Ísland allt árið sem er unnið í samvinnu fjölmargra aðila innan greinarinnar og snýst um að stjórnvöld og geirinn taki höndum saman til þess að lengja ferðamannatímabilið og fjölga störfum. Árangurinn hefur svo sannarlega ekki látið á sér standa og til marks um það er sú mikla fjölgun í bókunum sem við sjáum yfir haust- og vetrarmánuði bæði í ár og í fyrra.

Þetta eru því tölur sem er vert að skoða. Við getum líka séð að ferðamennska og aðrir flutningar skiluðu 15,2 milljörðum kr. meira af gjaldeyrisinnflæði á fyrstu þremur ársfjórðungum 2012 en á sama tímabili í fyrra. Við eigum eftir að sjá tölurnar í ár en það er engin ástæða til að ætla annað en að þessi velgengni haldi áfram. Ef við skoðum heildarferðaneysluna innan lands á árinu 2009 var hún tæpir 184 milljarðar kr. Útgjöld erlendra ferðamanna voru 111 milljarðar kr. eða 60,6% af ferðaneyslu innan lands.

Þetta eru allt góð merki og góð teikn fyrir atvinnugreinina og við erum ánægð með það því að við viljum veg hennar sem mestan. Við sem viljum standa fyrir fjölbreyttri atvinnustefnu og fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu vitum hversu mikil tækifæri leynast bæði í hinum beinu störfum sem tengjast ferðaþjónustunni og ekki síður í hinum afleiddu störfum, sem snúast m.a. um það að skapa vörur og þjónustu fyrir þann markhóp ferðamanna sem hingað kemur.

Það eru verkefni og þetta kemur ekki af sjálfu sér. Það þýðir ekki að láta þróunina eingöngu gerast af sjálfu sér, til að mynda skiptir miklu máli hvernig við höldum á þróun samgangna. Þar má nefna þróun flugsamgangna og líka annarra samgangna, það þarf að huga að því.

Margir hv. þingmenn hafa nefnt hvernig við ætlum að stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða, hvernig við ætlum að fjölga áfangastöðum fyrir ferðamenn innan lands. Til þess þarf að hlúa að þeim stöðum sem eru vinsælastir núna og þar nægir bara að skoða þær skýrslur sem hafa verið gerðar um ástand vinsælla áfangastaða á borð við Gullfoss, á borð við Geysi, Þingvelli og ég gæti haldið lengi áfram, staði sem eru sóttir af hundruðum þúsunda ferðamanna. Það skiptir að sjálfsögðu máli að stjórnvöld hugi að og leggi fjármuni í að tryggja að hægt sé að gera þá sem best úr garði. En það skiptir líka máli að fjölga áfangastöðum, skapa fleiri segla til að laða að ferðamenn og dreifa þannig álaginu eftir fremsta megni.

Ég verð líka að nefna að það skiptir máli að við séum ekki eingöngu að reiða okkur á náttúruna þegar kemur að ferðaþjónustu. Þar skiptir menningin máli og við sjáum líka mikla fjölgun þar. Við sjáum alla þá gesti sem hingað streyma til að sækja hátíðir á borð við Iceland Airwaves, svo að ég nefni eitt lítið dæmi.

Þessi teikn eru því góð og þá er ekki nema eðlilegt að við veltum fyrir okkur ákveðinni spurningu þegar við vitum öll hvernig staða ríkisfjármála hefur verið á undanförnum árum; strembin. Í raun og veru get ég sagt að allir þeir hv. þingmenn sem sátu hér í þessum sal á síðasta kjörtímabili fóru í gegnum hvern lið útgjalda og alla möguleika sem í boði voru til tekjuöflunar. Þá skiptir auðvitað máli og er ekki nema eðlilegt að við spyrjum þeirrar spurningar: Hvenær er atvinnugrein aflögufær til samfélagsins?

Það var mat þeirra sem samþykktu þessa tillögu á sínum tíma inn í fjárlög síðasta árs, sem miðuðu við þessa hækkun á virðisaukaskatti, að allt benti til þess að ferðaþjónustan, í ljósi stöðu hennar, í ljósi allra þeirra teikna sem ég hef hér þulið upp og allra þeirra talna sem ég hef þulið upp, væri búin að slíta að einhverju leyti barnsskónum sem atvinnugrein.

Það er nokkuð sem við fögnum en eðlilegt er að við veltum þá upp þeirri spurningu hvort ferðaþjónustan sé ekki aflögufær í þeirri þröngu stöðu sem hefur verið í ríkisfjármálum og við vitum öll að verður áfram strembin og það skiptir máli að gæta fyllsta aðhalds. Þetta er því eðlileg spurning og þess vegna var ákveðið að fara þessa leið.

Það skiptir líka máli að við berum okkur saman við önnur lönd. Ef við skoðum virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna á Norðurlöndunum er hann vissulega mismunandi. Hann er 8% í Noregi, 9% í Finnlandi, 12% í Svíþjóð og 25% í Danmörku. Að meðaltali er þessi virðisaukaskattur tæp 11% innan Evrópusambandsins. Þar með er auðvitað ekki öll sagan sögð því að tekjuskattsprósentan hér er hlutfallslega lág miðað við önnur ríki Evrópusambandsins og heildarskattbyrði á ferðaþjónustu er því með því lægsta sem þekkist á Norðurlöndunum eða innan Evrópu þegar þetta tvennt er vegið saman, og þá er ég að vitna til 14% virðisaukaskattsins.

Í máli sínu áðan ræddi hv. þm. Árni Þór Sigurðsson þá breytingu sem gerð var þegar virðisaukaskatturinn var lækkaður úr 14% í 7%, skömmu fyrir alþingiskosningar 2007, á hótel- og gistiþjónustu og raunar veitingahús líka. Það sem er kannski áhugavert að skoða miðað við tölur er að sú lækkun virtist ekki skila neinni umframaukningu í gistingu eða umsvifum samanborið við þróunina sem var í gangi á árunum þar áður. Hún stenst því ekki skoðun að mínu mati sú umræða sem hér var í gangi þegar samþykkt var að hækka skattinn í 14%, þegar menn ræddu um að slíkt væri eitthvert rothögg fyrir greinina. En vissulega voru sett fram þau varnaðarorð að þetta kynni að hafa í för með sér hægari fjölgun ferðamanna — ekki fækkun — hér á landi á næstu árum.

Þá komum við að hinu síðara atriði sem ég vil ræða. Það snýr ekki að stöðu ferðaþjónustunnar og þeirri spurningu sem ég tel eðlilegt að nefndin taki til umræðu þegar hún fær þetta mál til umræðu, sem er í raun og veru sú hvort við teljum atvinnugreinina aflögufæra um meira en 7% virðisaukaskatt, þ.e. að við teljum atvinnugreinina aflögufæra um 14% virðisaukaskatt. Þá spurningu þarf nefndin að ræða og í samhengi við annað skattalegt umhverfi ferðaþjónustunnar. Ég er viss um að þetta verður rætt ítarlega í hv. nefnd.

Þá kem ég að hinu atriðinu sem ég ætla að gera að umræðuefni sem er þau áhrif sem það hefur ef þetta frumvarp verður að lögum. Það kemur klárlega fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytis með frumvarpinu að tekjur ríkissjóðs verði lakari en áætlað var í fjárlögum sem nemur 535 millj. kr. árið 2013 og að árið 2014 og eftirleiðis verði tekjur ríkissjóðs um 1,5 milljarði kr. lægri árlega en ella hefði orðið að óbreyttum lögum.

Enn fremur kemur þar fram að á þessu stigi liggi ekki fyrir aðrar ráðstafanir til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóðs. Því verði að gera ráð fyrir að afkoman versni í sama mæli og þar með að sama eigi við um framgang markmiðs um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs ef ekki verða gerðar viðeigandi ráðstafanir til mótvægis.

Það sem mér finnst mikilvægt að verði sömuleiðis rætt í þeirri vinnu sem er fram undan hjá hv. nefnd er hvernig á nákvæmlega að koma til móts við það gat sem þarna myndast í ríkisfjármálaáætluninni til lengri tíma sem og á fjárlögum þessa árs. Þau svör þurfa auðvitað að liggja fyrir áður en frumvarp sem þetta er samþykkt. Áður en frumvarp um breytingu á tekjuáætlun ríkisins er samþykkt hljótum við að verða að hafa einhver svör við því á reiðum höndum hvernig á að koma til móts við þetta.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra nefndi áðan, eftir því sem ég heyrði best, að skoða yrði þá minnkun á útgjöldum að sama skapi. Mér finnst eðlilegt að hv. þingmenn fái að vita hvaða útgjöld er um að ræða, í hvaða málaflokkum ætlunin er að skera niður. Mér finnst eðlilegt að við hv. þingmenn fáum svör við því áður en frumvarpið kemur til atkvæðagreiðslu. Það er ekki nema eðlileg krafa þegar verið er að hreyfa sérstaklega við fjárlögum og breyta áætlunum innan árs. Þá hljótum við að vilja fá þessi svör því að hér er ekki bara verið að tala um lengri tíma áætlanir, þar sem eðlilegt er að gefa stjórnvöldum rýmri tíma til að koma með svörin, heldur erum við að horfa á tekjutap á þessu ári, árinu 2013, og þar af leiðandi verður væntanlega að stoppa í það gat á þessu ári, 2013.

Það er ekki langur tími til stefnu til að móta þær tillögur. Eins og mjög margir hv. þingmenn hafa bent á, og ég sé svo sem enga ástæðu til að endurtaka í mínu máli, er það nú svo að það að draga saman útgjöld er ekki létt verkefni, sérstaklega þegar við vitum að þeir málaflokkar sem ríkið rekur og sú samneysla sem ríkið rekur eru allt mikilvægir málaflokkar, hvort sem við horfum til framhaldsskóla, háskóla, heilbrigðisstofnana úti um land, Landspítalans, velferðarkerfisins. Við þurfum að svara því hvernig á nákvæmlega að bæta upp tekjurýrnun upp á 1,5 milljarða, hvort gera eigi það með skerðingu útgjalda eða með öðrum tekjum sem þarf þá að bæta við. Þessi svör þurfa að liggja fyrir fyrr en síðar.