142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu um ferða- og gistimálin og skattbreytingarnar sem fyrrverandi ríkisstjórn ákvað að setja á en hér á að afnema eða öllu heldur að koma í veg fyrir að nái fram að ganga. Það kemur líka fram í stefnuyfirlýsingu núverandi stjórnarflokka, eins og þeir boðuðu í kosningabaráttunni, að gera eigi úttekt á skattkerfinu og miklar breytingar fyrirhugaðar. Skattar á tekjur, vöru og þjónustu eiga að lækka. Það hefur ekki verið útfært hvernig eigi að gera það, hverjir muni njóta þess, hvaða vörum eigi að lækka skatta á eða hvaða þjónustu. Ekkert er getið um kostnað við þessar skattalækkanir eða hvernig mæta eigi þeim kostnaði með auknum tekjum eða minni útgjöldum.

Ræða hæstv. fjármálaráðherra hér áðan var yfirlýsing um niðurskurð. Hann lýsti því yfir að stjórnin mundi skera niður, eins og fram hefur komið í dag, um 535 milljónir á þessu ári og 1,5 milljarða á því næsta. Til að mæta tapinu, eins og hér hefur komið fram, veltir maður því auðvitað fyrir sér hvar skera eigi niður. Maður skyldi ætla að tekin hafi verið um það ákvörðun á sama tíma, þar sem fjárlagagerðin fer nú af stað og ætti að vera hafin. Eða ætlum við að hafa fjárlagagatið upp á rúman hálfan milljarð? Hann sagði einnig að gatið væri stærra en svo að skattur á ferðaþjónustuna hefði eitthvað að segja. Eru það rök í málinu að gera fjárlagagatið stærra á sama tíma og hæstv. fjármálaráðherra staðhæfir að mikla fjármuni vanti í ríkissjóð? Það finnst mér sérkennilegt í hæsta máta.

Hæstv. ráðherra sagði einnig að hafa ætti virðisaukaskattinn á gistiþjónustuna lágan næstu árin, meðal annars til að fjárfesta í innviðum. En hvenær er ferða- og gistiþjónustan tilbúin til að greiða hærri skatt, ef ekki nú þegar við heyrum daglega af fjölgun ferðamanna? Auðvitað veltir maður því fyrir sér í framhaldinu hvernig fjármálaráðherra hyggist fara með skattlagningu á ferðaþjónustuna til framtíðar litið.

Það kemur fram í frumvarpinu, með leyfi forseta, að á þessu stigi liggi ekki fyrir aðrar ráðstafanir til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóðs. Því verði að gera ráð fyrir að afkoman versni í sama mæli og þar með að sama eigi við um framgang markmiðs um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs ef ekki verða gerðar viðeigandi ráðstafanir til mótvægis. Það er því ekki óeðlilegt, þegar þessi umsögn kemur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, að um þessa hluti sé spurt.

Hæstv. ráðherra sagði líka að breytingar á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna væru meðal annars til að fá hingað til lands ferðamenn sem eyða meiru, efnameiri ferðamenn, og þannig mundi afslátturinn skila sér til baka. Þá spyr maður: Er það markmiðið að skipta um ferðamannategund? Hver tók þá ákvörðun? Er það gert í samráði við samtök í ferðaþjónustu? Er ekki rétt að opinbera þessa stefnu? Hver segir að betra sé að fá ríka ferðamenn til landsins en venjulega ferðamenn, liggur það einhvers staðar fyrir?

Ferðaþjónustan býr við árstíðarsveiflur, fjarlægðir og aðgengi, það er að segja samgöngur, troðning vegna takmarkaðra innviða, kröfur um kyrrð, frið og víðernisupplifun; allt þetta krefst þess að töluverðir fjármunir verði settir til uppbyggingar innviða tengdra ferðaþjónustunni. Það er í hæsta máta eðlilegt að mínu viti að ferðaþjónustan innheimti neysluskatt sem erlendir ferðamenn greiða að stærstum hluta eins og kom fram í máli ráðherra hér áðan.

Við sem erum hluti af þessari atvinnugrein eigum að vera þátttakendur í samfélaginu. Mig langar að vitna hér aðeins í dr. Edward H. Huijbens sem er forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og hefur líklega rannsakað ferðaþjónustu á Íslandi einna mest. Hann segir í grein sem birtist í tímariti Landsbankans í mars síðastliðnum að við séum að fara inn í gríðarmikið vaxtarskeið og að gestum muni fjölga ört á næstunni. Hann segir að mikill vöxtur hafi orðið undanfarin ár og um 20% á síðastliðnu ári og telur að þróunin verði hin sama á þessu ári og að í fyrirsjáanlegri framtíð munum við upplifa gífurlegt vaxtarskeið nema ófyrirséðir utanaðkomandi þættir breyti þróuninni.

Dr. Huijbens segir í greininni að bæði upp úr 1970 og 1990 hafi ferðaþjónustan sprottið fram sem ákveðið lausnarorð og margir viljað bjarga sér með henni. Hugsanlega hafi það haldist í hendur við fall krónunnar í kjölfar þess að erfiðleikar hafi komið upp í efnahag landsins. Eftir 1990 hafi fjölgun ferðamanna verið mikil og að sumu leyti fyrirsjáanleg. Nú blasi við að árið 2015 eða 2016 náist það markmið sem lengi hafi verið orðað í ferðaþjónustu að fá til landsins eina milljón ferðamanna á ári og líklega nokkuð fyrr en spár hafa gert ráð fyrir til þessa. Spár hafa gengið út á að því markmiði verði náð árið 2020 en hann telur að það verði töluvert fyrr.

Í greininni kemur einnig fram að Umhverfisstofnun hafi þegar sett á válista þá staði sem liggi undir skemmdum og kalli á aðgerðir strax og gera þurfi ítarlegra mat á álagi á ferðamannastöðum eins og ég fór yfir hér áðan. Hann bendir á að staðan sé þannig að umsjónar- og eftirlitsaðilar séu yfirleitt að elta þróunina og það væri ekki fyrr en að staðurinn væri kominn í fulla notkun sem menn færu að huga að uppbyggingu hans, sem er auðvitað ekki gott. Búið er að setja á stofn Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, það eru mun ríkulegri leiðbeiningar um hönnun og uppbyggingu og sérhæfðu starfsfólki hefur fjölgað töluvert. Hann bendir á að í Noregi megi sjá glæsileg dæmi um hvernig standa megi að málum — þar sem áherslurnar eru ekki ósvipaðar og hjá okkur, náttúrufegurðin er mögnuð — með glæsilegri hönnun mannvirkja fyrir ferðamenn og að hugsa skuli allt sem eina heild. Hann bendir á að ljóst sé að til að hafa einhvern þjóðhagslegan ávinning af ferðaþjónustu þurfi að hafa fjölda til að þjóna og þetta þarf að fara, eins og hann orðar það, í gegnum ákveðna vél.

Huijbens bendir líka á að allt að því helmingur þeirra tekna sem verða af ferðaþjónustu hér á landi fer í gegnum Icelandair Group. Það er risinn í íslenskri ferðaþjónustu og svo stóru hótelin hér í Reykjavík.

Ég fór af stað í ferðaþjónustu með gistingu vitandi að meðalnýting gistinátta væri í kringum 33% eins og kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Gunnarsdóttur hér áðan. Allt það sem kemur þar til viðbótar er jákvætt fyrir mig og aðra sem eru í slíkum rekstri. Ég fór af stað árið 2007, rétt fyrir hrun. Ég var að opna viðbótargistingu í fyrra og ég var að opna kaffihús fyrir viku; allt þetta vitandi það að nýtingin væri ekki meiri. Ég bý á litlum stað úti á landi og eins og ég sagði áðan er allt til viðbótar við það sem komið hefur fram í opinberum tölum, og ég lagði af stað með sem forsendur fyrir mínum rekstri, til hagsbóta. Núverandi stjórnarliðar töluðu á sínum tíma um, og gera enn, að það að bæta við þessu 14% þrepi í virðisaukaskattinn í ferðaþjónustu gerði skattkerfið svo flókið og erfitt fyrir þá sem innheimta þyrftu mismunandi virðisaukaskatt. Ég hef á mínum kassa í gisti- og kaffihúsinu fimm takka sem eru merktir. Þetta er ekki flókið. Það er veitingasala, það er áfengissala, það er gisting og það er rafmagn því að ég rek tjaldstæði líka. Ég sé ekki hvað er svona flókið við þetta. Ég sé ekki af hverju við ætlum að ætla fólki að nenna ekki að sundurliða það sem það er að gera. Mér finnst það ekki vel meinandi og hugsandi að ætla fólki fyrir fram að það geti ekki sinnt þessu svo vel sé.

Ég velti því líka fyrir mér hvort mikið hafi verið um afbókanir núna vegna þeirra sem ætluðu til dæmis að koma næsta haust, þ.e. eftir að þessi skattur átti að taka gildi. Það var hluti af rökstuðningnum, í umræðum sem áttu sér stað þegar þetta var ákveðið hér á Alþingi og af hálfu ferðaþjónustunnar, að það væri bókað svo langt fram í tímann. Það væri því gaman að fá að vita hvort mikið hefur verið um afbókanir fyrir næsta vetur.

Ég hef talað við hótelstjóra á stóru hóteli hér í Reykjavík. Hann segist aldrei hafa fengið eins miklar bókanir og í vetur — þetta samtal átti sér stað í mars — og allt þetta ár og þar með talið fram til áramóta, það er að segja eftir þennan alræmda 1. september þegar 14% áttu að taka gildi.

Ég heyrði í útvarpinu viðtal við formann Ferðaþjónustu bænda — ég held það hafi verið hann — sem bar sig afar vel, og það er jú gisting á landsbyggðinni. Hann talaði um að mikið væri um bókanir og útlitið væri gott. Ég trúi því að þó að ferðaþjónustan fari aftur að greiða sama virðisaukaskatt og hún gerði skömmu fyrir hrun, og í mörg ár þar á undan, þá haldi hún áfram að vaxa og dafna; þá óx hún og dafnaði eins og hún hefur verið að gera hin allra síðustu ár.