142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:13]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með því að snúa hæfilega út úr væri gaman að segja þegar sjálfstæðismenn koma ítrekað í ræðustól og segja að hagvöxtur sé miklu minni en hann þyrfti að vera: Hver er hagvöxturinn í Evrópu? Hver er hann í Bandaríkjunum? Af hverju nota þá menn ekki sömu rökin núna? Auðvitað báru þáverandi flokkar verulega ábyrgð á því sem þá gerðist þó að það hafi alls ekki gerst í tómarúmi. Ég tók sérstaklega fram varðandi lánamálin að til dæmis ódýrir vextir þýddu að menn tóku hér ótrúlega mikið af lánum. Bankakerfið var undir regluverki sem var afar vanþroskað og átti að vera frjálst, átti að vera án eftirlits, átti að stjórnast af samkeppni sem mundi „regúlera“ og stjórna. Ekkert af því gekk eftir, það er það sem við erum að tala um.

Við erum að fá fyrsta frumvarpið, það er um atvinnumál, það er um tekjur ríkissjóðs. Það fellir ekki ríkissjóð, en ef menn ætla að kvarta yfir því að okkur vanti pening til þess að fara í það sem þarf að gera í velferðarmálum og öðru slíku þá byrja menn ekki á því að skera niður 1,5 milljarða að óþörfu. Það er það sem við erum að tala um. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir segir, þetta kallar fram umræðu um miklu stærra samhengi, um umhverfið sem við ætlum að hafa í skattamálum gagnvart einstaklingum, gagnvart fyrirtækjum, í samanburði við útlönd. Hvernig er ferðaþjónustan sett hérlendis miðað við erlendis? Hvert er verðið á gistinóttum með 25% virðisaukaskatti hjá sambærilegum fyrirtækjum í Kaupmannahöfn og hjá okkur sem erum með 7% virðisaukaskatt?

Tökum þá umræðu. Við þurfum á henni að halda því að þetta er líka spurning um verðlagningu, álagningu, hvað menn draga út úr, hagkvæmni og annað slíkt. Eitt stendur eftir; við erum sammála um að ferðaþjónustan er ein af okkar grunnstoðum og þarf að lifa. Það á að byggja undir hana en hún á ekki að byggja á fölskum forsendum þannig að þegar (Forseti hringir.) umhverfið verður eðlilegt þá hrynji hún.