142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þar sem þessi umræða hefur að verulegu leyti tekið að snúast um ferðamál er ekki úr vegi, tel ég, að fyrsti ferðamálaráðherra Íslendinga vindi sér í þessa umræðu. Erindi mitt er þó einungis örstutt.

Ég vil í upphafi máls míns trúa hæstv. forseta fyrir því að þó að ég líti svo á að hæstv. fjármálaráðherra sé með allra háttvísustu mönnum sem aka seglum á þessu þingi þá vil ég nú segja að hann hefði átt að sýna þá kurteisi að sitja undir umræðu um sitt fyrsta þingmál sem hann leggur fram sem fjármálaráðherra. Þeim mun heldur segi ég það, virðulegi forseti góður, vegna þess að meginerindi mitt hingað í þennan stól er að í fararbyrjun að óska honum allra heilla í vandasömu embætti. Siglingin verður erfið, en þó að ég sé í mörgum efnum algerlega andstæður skoðunum hæstv. fjármálaráðherra þá hef ég þó af góðu samstarfi við hann í gegnum árin komist að þeirri niðurstöðu að hann er vandaður maður og líklegur til að gegna starfi sínu af mikilli trúmennsku.

Hæstv. fjármálaráðherra er líka pólitískt karlmenni að mínu viti. Hann hefur lifað marga erfiða pólitíska brotsjói og komist í gegnum þá til hins háa embættis sem hann er núna í og má kannski líkja honum við þann gráa örótta fresskött sem býr á Vesturgötunni og hefur níu líf en er búinn með tólf. Vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur sýnt það í verki, og ég virði hann fyrir það, að honum bregður hvorki við sár né bana þá verð ég líka að trúa hæstv. forseta fyrir því að mér hefur brugðið svolítið í brún við að hlusta á ræður hæstv. fjármálaráðherra frá því að þing kom saman. Þær hafa einkennst af kveini og hálfgerðum grátstöfum undan því að það bú sem hann tekur við sé svo snöggtum verra en hann hefði nokkru sinni gert sér grein fyrir. Hefur þó þessi hæstv. fjármálaráðherra setið hér sem óbreyttur þingmaður löngum stundum undir umræðum um fjármál ríkisins þar sem hvert einasta snitti kom fram sem hann hefur fram að færa til rökstuðnings þeirri fullyrðingu að hann taki hér við tífalt verra búi en hann ætlaði.

Það má líka spyrja eins og margir hafa rætt hér á undan mér: Hvernig stendur á því að fjármálaráðherra grætur og kveinar í beinni útsendingu yfir því að búið sem hann tekur við sé svo vont? Hans fyrsta ganga er þó að leggja fram frumvarp sem gerir það enn þá verra. Í því felst dularfull þverstæða og ef hæstv. fjármálaráðherra hefði sýnt þann mannasið að vera viðstaddur umræðuna hefði ég spurt hann: Hvað veldur?

Ég get ekki annað en tekið undir með þeim sem hér hafa spurt í dag: Hver er sú áætlun sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að fylgja í þessum efnum? Ég trúi því og treysti þegar hæstv. fjármálaráðherra segir eins og hann sagði í gær að það sé skylda sérhvers fjármálaráðherra og góðrar ríkisstjórnar að reyna að skila sem minnstum halla á fjárlögum ríkisins. Ég hefði gjarnan viljað ef hann hefði haft kurteisi til að bera til að vera hér svo hægt væri að spyrja hann að því hvað felist í þeim parti stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem segir að leggja eigi fram skynsamlega áætlun um hallalaus fjárlög. Hvað þýðir það? Að það eigi að demba sér í það á fyrstu árunum að auka skuldir ríkisins?

Herra forseti. Miðað við hvernig kosningabaráttan var háð verð ég líka að segja að ég er undrandi á því að fyrsta málið sem hæstv. ríkisstjórn leggur fram til umræðu sem varðar fjárlög skuli vera þetta mál, ekki vegna þess að ég skilji ekki að hæstv. fjármálaráðherra vill standa við kosningaloforð, ég virði það í sjálfu sér, en það voru gefin önnur kosningaloforð miklu dýrari, miklu róttækari og djúpristari. Öllum þorra almennings í landinu sem býr við verðtryggð, stökkbreytt lán var gefið til kynna að þegar þessi ríkisstjórn kæmi til valda mundi verulegum parti af oki þessa fólks verða létt af öxlum þess.

Ég hef fullan skilning á því að það sé erfitt fyrir nýja ríkisstjórn, sem ég ætla ekki að saka um reynsluleysi vegna þess að það er frekar kostur en galli, að leggja fram alsköpuð, fullbúin frumvörp. En þegar hæstv. forsætisráðherra, sem slær sér á brjóst, m.a. í ræðum sínum í gær, vegna þeirra áætlana sem hann hyggst beita sér fyrir, kemur til þings slyppur og snauður án þess að leggja fram eitt einasta frumvarp þá kemur mér það á óvart. Mér kemur verulega á óvart að það eina sem við eigum að fá að sjá í þá veru sé minnisblað sem hæstv. forsætisráðherra hefði þess vegna getað rétt samráðherrum sínum um hvaða verkefni hann ætlar að vinna til að reyna að standa undir kosningaloforðum sínum. Mig rak í rogastans að sjá það á vefnum áðan að nú er loksins komin sú þingsályktunartillaga þar sem hæstv. forsætisráðherra leggur til að þingið óski eftir því að hann uppfylli sín eigin kosningaloforð. En þar er ekkert að finna nema það á að leita mismunandi leiða. Ég veit að hv. þm. Frosta Sigurjónssyni þykir sárt að sitja undir þessu. Var það þá þannig að Framsóknarflokkurinn hafði ekkert plan? Var þetta bara púðurskot út í loftið og er nú hæstv. fjármálaráðherra að draga í land? Ég veit það ekki, herra forseti, og ég skal segja það alveg ærlega: Það er hugsanlega ósanngjarnt að tala með þessum hætti þegar ríkisstjórn er einungis búin að sitja í fjórar eða fimm vikur.

Ég gæti auðvitað vísað til þess að það eru menn í þessum sal sem sögðu blákalt ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur þremur sinnum við þorra kjósenda að ef viðkomandi einstaklingur yrði kjörinn á þing, ja, þá mundu þessar leiðréttingar verða gerðar ekki á næsta ári, ekki í haust heldur strax! Það er fært á bók, það er hægt að lesa. Ég ætla ekki að fara frekari orðum um það en ég kenni til með hv. þm. Frosta Sigurjónssyni yfir því hversu sú stefna sem hann lagði fram fyrir hönd Framsóknarflokksins er grátt leikin.

Það sem ég hefði þó viljað spyrja hæstv. fjármálaráðherra um ef hann væri staddur við umræðu um sitt eigið frumvarp — ég verð að segja að ég minnist þess aldrei að nokkur fjármálaráðherra hafi byrjað sinn feril á því að vera fjarstaddur umræðu um fyrsta málið sem hann leggur fram. (Gripið fram í: Hann er í húsinu.) Mér er alveg sama, herra forseti, þó að hæstv. fjármálaráðherra sé í húsinu en það getur hins vegar vel verið og verður ekki til að greiða fyrir umræðunni ef ég þarf að fara aftur í ræðu til að spyrja spurningar. Hún var þessi: Hefur hæstv. fjármálaráðherra tekið það saman hvað þær yfirlýsingar kosta sem samráðherrar hans, aðallega úr Framsóknarflokknum, hafa gefið á þeim stutta tíma sem lifir frá því að ríkisstjórnin var mynduð? Ég er þá að tala um þær yfirlýsingar sem hæstv. umhverfis-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra gaf varðandi veiðigjald þar sem hann sagði að það væri skýrt að það ætti að lækka. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, vegna þess að það skiptir máli eins og komið hefur fram í umræðunni í dag, hversu mikið á að lækka það veiðigjald. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvað kosta þau fyrirheit sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur gefið ásamt því frumvarpi sem hér liggur fyrir og ýmsum öðrum yfirlýsingum? Hvað kostar það allt? Við þurfum að vita það ef við ætlum að ástunda hér stjórnmálastörf á grundvelli tærleika og ábyrgðar og það er það sem við viljum öll. Þess vegna undrar það mig að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki við 1. umr. um fjárlög ríkisins treysta sér til að segja okkur frá því hvað þessar aðgerðir kosta. Ég segi það ekki vegna þess að ég sé á móti þeim en ég þarf að vita: Hvað kosta þær? Hæstv. fjármálaráðherra hefur líka sagt okkur að það gapi við 30 milljarða gat. Þá spyr maður sjálfan sig: Er það ábyrgur fjármálaráðherra sem segir: Hér er óvænt 30 milljarða gat, og ætla sér síðan að bæta á það kannski 15–20 milljörðum? Kannski er upphæðin einhver önnur, ég veit það ekki en þeir hljóta að hafa reiknað það út.

Ég sagði í upphafi máls míns að hæstv. fjármálaráðherra hefði komið og grátið og kveinað undan því að búið sem hann tekur við væri svo vont og hann tiltók nokkra þætti. Hann tiltók það t.d. að hagvöxtur væri ekki jafn mikill og menn höfðu ætlað. Fjárlög voru byggð á spá sem var m.a. staðreynd af Seðlabanka Íslands. Hæstv. fjármálaráðherra sagði, og það þótti mér verst í máli hans vegna þess að þar er reyndur maður á dekki, að það hafi komið mjög á óvart að stofnanir hefðu keyrt 6 milljarða fram úr áætlun. Herra trúr, hvaða ríkisstjórn stendur ekki frammi fyrir því í upphafi hvers kjörtímabils, í upphafi nánast hvers árs? Það yrði lítið úr svona vöskum drengjum ef þeir fengju í fangið 216 milljarða halla. Þegar ríkisstjórn stendur andspænis því að stofnanir fara fram úr áætlunum hvað gera menn þá? Þeir fara á dekk. Þeir fara og vinda ofan af því, þeir fara með skrúfu og steglu á viðkomandi stofnanir eins og við höfum gert svo oft og koma aftur oft blóðrisa upp á herðablöð en þeir vinna vinnuna sína. Til þess eru hæstv. fjármálaráðherrar. Svipaða ræðu og ég er að halda núna er ég sannfærður um að þessi brosmildi hæstv. fjármálaráðherra hefur mörgum sinnum haldið yfir öðrum, en þetta er verkið sem á og þarf að vinna. Og svo kvartar hæstv. fjármálaráðherra undan því að ekki sé búið að ganga frá sölu á eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Herra forseti. Er það ekki þessi hæstv. fjármálaráðherra og þessi góða ríkisstjórn sem nú er tekin við völdum sem hafa talað um að það sé bara eins og að smella fingri að selja tvo banka. Ríkið á slatta í þeim þannig að ég vorkenni mönnum ekki út af þessu.

En ég skal fallast á eitt: Stundum verða áföll og ég tel að það sé áfall ef það er svo að staða Íbúðalánasjóðs er orðin með þeim hætti að þeir 13 milljarðar sem hæstv. fjármálaráðherra var upplýstur um í desember sl. að þyrfti að láta inn í Íbúðalánasjóð þurfi að gjaldfæra. Það er áfall og ég ætla ekki að fara að kenna nýjum þingmönnum ósiðina með því að rifja upp liðna tíð. En það er samt þannig að það kemur vel á vondan þegar hugsað er til þess að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur algerlega skýrt fram að rekja má ófarir Íbúðalánasjóðs aftur til ákvarðana sem eru teknar í upphafi ríkisstjórnarinnar sem tók við 2003. Það var forveri þessa ágæta hæstv. fjármálaráðherra í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins sem sagði það beinlínis, sagði það hreint út að það hefðu verið mistök Sjálfstæðisflokksins að fallast á kröfur Framsóknarflokksins varðandi Íbúðalánasjóð. Þaðan koma þessir 13 milljarðar, hæstv. fjármálaráðherra. Það breytir ekki hinu að við stöndum andspænis því núna og það er verk sem þarf að vinna. Ég get fallist á að það er áfall, en a.m.k. í desember var það ekki skoðun fjármálaráðuneytisins og þeirra vönduðu embættismanna sem þar vinna.

Um málið sjálft, herra forseti, get ég sagt það að ég hefði samþykkt þessa tillögu hæstv. fjármálaráðherra ef hann hefði uppfyllt þá reglu sem besti fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins til þessa innrætti mér ungum og grænum ráðherra, blautum á bak við eyrun. Hún var þessi: Menn leggja ekki til útgjöld nema sýna með hvaða hætti á að afla á móti. Ef hæstv. fjármálaráðherra hefði lagt fram tillögur á móti til að mæta því tekjufalli sem stafar af samþykkt þessa frumvarps hefði ég umsvifalaust — kannski ekki kropið honum á hnjám en ég hefði léð honum stuðning minn í þessu máli.

Ég tel nefnilega að varðandi þetta mál sé ein röksemd sem hæstv. fjármálaráðherra og fleiri hafa flutt hér í dag. Ég tel ekki að ferðaþjónustunni sé ofvaxið að axla byrði af þessu tagi en ég fellst á það að sú ákvörðun var sett á með of skömmum fyrirvara. En það breytir ekki hinu að ég þarf, samkvæmt þeirri ábyrgð sem mér var innrætt af fyrri fjármálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins, að sjá hvar á að taka tekjur á móti til að ég geti glatt hæstv. fjármálaráðherra með því að ljá honum stuðning minn.

Að síðustu þetta: Ég kom til þessa þings albúinn þess og lýsti því yfir að greiða götu frumvarpa sem ég taldi að hæstv. forsætisráðherra mundi leggja fram til að uppfylla kosningaloforð sín um að létta verulega það ok sem hvílir á öxlum þeirra sem vöknuðu daginn eftir hrun með stökkbreyttar skuldir. Það var það sem ég ætla að gera hér á þessu þingi, ekki vera að nuddast við hæstv. fjármálaráðherra út af þessu sem er kannski ekki skitirí en er hjóm eitt á miðað við þann stóra pakka sem hæstv. forsætisráðherra lofaði. Ég kom hingað vegna þess að ég trúði hæstv forsætisráðherra. Enn vil ég halda í þá trú mína vegna þess að samstarf mitt við hann, alveg eins og við hæstv. fjármálaráðherra, hefur aldrei leitt (Forseti hringir.) að annarri niðurstöðu en þeirri (Forseti hringir.) að það er hægt að trúa honum. (Forseti hringir.) En ég er farinn að efast eftir að hafa séð þau mál (Forseti hringir.) sem hér eru lögð fram.