142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður saknaði mín héðan úr þingsal meðan hann flutti ræðu sína og mér þykir vænt um það. Ég var m.a. að flytja landsmönnum í útvarpsþætti fréttir af stöðu ríkisfjármála sem hv. þingmaður var einmitt að fjalla um í ræðu sinni í víðu samhengi. Það vekur athygli á hversu breiðum grundvelli umræðan er í dag vegna frumvarps sem fjallar eingöngu um að kalla aftur ákvörðun um að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu í landinu. Það er ágætt, það er gott að fá tilefni til að ræða efnahagsmálin í víðu samhengi á upphafsdögum þingsins og eflaust gefast fleiri tækifæri til þess.

Mér fannst gæta ákveðins misskilnings hjá hv. þingmanni þegar hann lét að því liggja að nýviðtekin ríkisstjórn væri mjög að kveinka sér undan stöðu ríkisfjármála. Það er ekki svo, en það skiptir okkur miklu máli að upplýsa um stöðuna eins og hún er, nákvæmlega eins og hún er. Það er staðreynd að lægri hagvaxtarhorfur á yfirstandandi ári munu leiða til þess að tekjur ríkisins af umsvifum í samfélaginu verða minni en menn ætluðu sér. Sama gildir um eignasöluna sem vikið var að.

Ég tel reyndar að það hefði átt að vera fyrirséð að 13 milljarða framlagið sem menn horfðu til að kæmi til Íbúðalánasjóðs á þessu ári mundi ekki duga til að standa undir einhverri eignamyndun ríkisins hjá Íbúðalánasjóði. Þá er nærtækt að horfa til þess hversu langt undir eiginfjárviðmiðum Íbúðalánasjóður hefur verið rekinn í langan tíma.

Allt þetta tel ég að hafi með einum eða öðrum hætti verið fyrirséð og þetta kom fram (Forseti hringir.) undir fjárlagaumræðu undir lok síðasta árs. Það stefnir því miður í að hallinn verði í kringum 30 milljarðar en ekki nálægt jöfnuði eins og fyrri ríkisstjórn hefur alltaf talað.