142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það merkasta sem hæstv. fjármálaráðherra hefur enn sagt á skömmum ferli sínum voru þau orð sem hann sagði áðan, og ég tek undir með honum um það, það er gott að vera saknað. Ég fann það þegar ég kom heim til mín eftir sex ára fjarveru í ráðuneyti.

Það breytir ekki hinu að hæstv. ráðherra skaut sér undan fyrirspurnum mínum. Þær voru þessar: Hvað munu þær aðgerðir sem hinir ýmsustu ráðherrar núverandi hæstv. ríkisstjórnar hafa lýst yfir að þeir hyggist ráðast í á þessu ári, kosta, bæði þær sem leiða til aukinna útgjalda og eins hinar sem kunna að leiða til minni tekna?

Þetta er spurning sem ég vænti þess að þegar hæstv. fjármálaráðherra var fjarri hérna áðan til þess að boða landsmönnum stöðuna í ríkisfjármálum, að hann hafi líka upplýst það. Ég var hér í ræðu minni áðan, m.a. undir lok hennar og hæstv. ráðherra var þá kominn og hlustaði, að segja að ég tel að hæstv. ráðherra sé vandaður maður. Slíkir menn, þegar þeir birta landsmönnum stöðuna í ríkisfjármálum, greina þá væntanlega líka frá því hvað þær aðgerðir sem þeir eru að grípa til kosta, svo að ég endurtek þessa spurningu mína.