142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Frumvarpið sem við ræðum hér hefur væntanlega neikvæð áhrif á ríkissjóð um u.þ.b. 500 milljónir á yfirstandandi ári. Það er vandi sem við þurfum að glíma við ásamt með hinum 30 milljörðunum sem ríkisstjórnin skildi eftir sig en hafði ekki gert ráð fyrir. Þetta er vissulega stór vandi og það er í forgangi hjá okkur á fyrstu dögum okkar í Stjórnarráðinu að glíma við hann og setja saman áætlun sem verður lögð fram ásamt fjárlagafrumvarpinu í haust um það hvernig við höggvum hann niður og snúum ríkisfjármálunum úr halla yfir í afgang á næstu missirum og árum.

Það er ekkert áhlaupsverk, það hefur fráfarandi ríkisstjórn reynt. En því miður hefur það gerst undanfarin ár, á hverju einasta ári, að hástemmdar yfirlýsingar um að nú væri frumjöfnuði náð, eins og lýst var yfir árið 2011 en það ár var frumjöfnuður í nokkurra tuga milljarða mínus, eða að heildarjöfnuði hafi verið náð eins og lýst var yfir þegar fjárlög voru kláruð fyrir þetta ár, hafa reynst innantóm orð, allar þessar yfirlýsingar því miður. Það er himinn og haf á milli niðurstöðunnar í ríkisfjármálum á hverju einasta ári, fjögur ár aftur í tímann, og þess sem lagt var upp með að ætti að gerast. Þessu þarf að breyta þegar við horfum til lengri tíma. Það virðist vanta meira raunsæi í ríkisfjármálagerðina eða fjárlagagerðina.

Svo erum við að hluta til líka að upplifa að það fauk ákveðin verðbólga í stjórnmálin og útgjaldaloforðin í aðdraganda kosninga og teknar voru ákvarðanir á yfirstandandi ári (Gripið fram í.) sem við erum að súpa seyðið af.