142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar, sem talar hér um að draga til baka þennan skatt sem er reyndar ekki kominn til — að gera það og hafa ekki jafnframt langtíma fjögurra ára skattstefnu kallar hann ófullburða. Í ljósi þess langar mig að spyrja hv. þingmann að því þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lagði fram fjárfestingaráætlun í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2013, sem byggði á hugsanlegri sölu eigna og hugsanlegum ágóða af sérstöku veiðigjaldi, hvort það hefði verið fullburða fjárfestingaráætlun inn í framtíðina ef það sem hér liggur fyrir, að kalla til baka fyrirhugaða skattahækkun, kallast ófullburða.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann varðandi hið svokallaða sérstaka veiðigjald, þar sem komið hefur í ljós að sú lagasetning sem sett var á Alþingi af okkur þingmönnum er ófullburða og ekki er hægt að kalla eftir þeim gögnum sem þar til bærir aðilar segjast þurfa til að hægt sé að leggja á þetta sérstaka veiðigjald, hvort það sé þá ekki réttmætt að draga til baka og í það minnsta að vanda sig þegar kemur að því og vanda þá lagasetningu í stað þess að við förum af stað með mál sem hv. þingmaður vill kalla ófullburða.