142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni og þingmönnum Sjálfstæðisflokksins mörgum fyrir að taka þátt í umræðunni hér í dag þó að mér hafi ekki tekist að fá talsmann Framsóknarflokksins til að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu að þessu sinni.

Ekki tók hv. þingmaður nákvæmlega eftir orðum mínum því að ég gerði ekki kröfu til þess að stjórnarmeirihlutinn hefði skattstefnu til fjögurra ára. Stjórnarmeirihlutinn hefur bara þá stefnu sem hann vill og hann kynnir hana þegar hann vill og hann getur breytt henni frá einum tíma til annars. Það er hans pólitíska umboð.

Ég kallaði eftir því að hér væri meðfylgjandi áætlun í ríkisfjármálum sem sýndi að ríkissjóður réði við það sem ríkisstjórnin ætlar að gera á þessu sumarþingi og hún er búin að lýsa yfir. Það er mjög mikilvægt að ríkissjóður eigi fyrir því sem við þannig lýsum yfir.

Við ræðum sérstakt veiðigjald síðar á þessu sumarþingi. Það var auðvitað ekki ófullburða og hefur skilað gríðarlega miklum tekjum. Við erum einfaldlega ósammála um það ég og hv. þingmaður.

Að öðru leyti held ég að það sem þingmaðurinn verði að horfa til er að henni þykir sú ákvörðun að falla frá 1.500 millj. kr. tekjum á ári ekki vera svo stór að það kalli á að henni fylgi eitthvað. Ég vísa til þess að í því ljósi að við erum með yfirlýsingu um að auðlegðarskatturinn eigi að falla út, það eru um 5 milljarðar á ári, svona eftir minni, það er yfirlýsing um að lækka sérstaka veiðigjaldið, það er yfirlýsing um milljarðaútgjöld í almannatryggingum, sem ég fagna alveg sérstaklega, og ýmis önnur góð áform. Það er mikilvægt, áður en frumvörp þess efnis eru afgreidd sem lög frá Alþingi, að fyrir liggi ríkisfjármálaáætlun sem sýnir það bara að við höfum efni á þessu. Sem fyrrverandi sveitarstjóri hefði ég haldið að hv. þingmaður gæti (Forseti hringir.) tekið undir slíkt sjónarmið.