142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hvort vitað sé til þess hvort hæstv. fjármálaráðherra er í húsinu.

(Forseti (SilG): Hann er í húsi.)

Ég óska eftir því að hann verði viðstaddur umræðuna.

Hér hefur talsvert verið um það rætt að til standi að afnema skatt sem ekki sé kominn til sögunnar. Ég gerði þetta lítillega að umræðuefni í fyrri ræðu minni í dag og vil ítreka að ég tel þetta vera rangt. Þetta er skattur sem þegar hefur verið lögfestur og gert er ráð fyrir þeim fjármunum sem af honum koma í fjárlögum þessa árs. Þess vegna er það raunveruleiki að verið sé að afsala fjármunum fyrir hönd ríkissjóðs sem ella hefðu runnið í þann sjóð. Það er veruleikinn.

Síðan er það hitt að segja má um öll gjöld, hvort sem það eru auðlindaskattar eða skattar yfirleitt, að þau byggja öll á líkindareikningi að vissu marki. Við vitum aldrei fyrir víst hvað það er sem kemur til með að renna í ríkissjóð í gengum tekjuskatt, eignarskatt eða skatta yfirleitt.

Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að koma og vera viðstaddur umræðuna. Í raun er ekki til of mikils mælst að ætlast til þess að hæstv. fjármálaráðherra sé viðstaddur umræðuna vegna þess að hún snýst um að afsala ríkissjóði 6 milljörðum kr. á komandi kjörtímabili, hálfum öðrum milljarði á hverju ári þannig að við erum að fjalla um miklar upphæðir.

Ég talaði fyrr í dag og ekki er óeðlilegt að einhver spyrji hvort ég hafi einhverju við að bæta frá því sem ég sagði í fyrri ræðu minni og í rauninni er svo ekki. En ég kem hingað upp til að árétta að ég hef ekki fengið svör við þeim spurningum sem ég reiddi fram.

Mig langar til að byrja þessa stuttu ræðu mína á litlum upplestri. Hann er úr fylgigagni með frumvarpinu og er svohljóðandi, með leyfi forseta, og ég bið menn um að taka mjög vel eftir:

„Verði frumvarpið að lögum er áætlað að ríkissjóður muni verða af tekjum sem nema 535 millj. kr. árið 2013 og verða tekjur ríkissjóðs þá lakari en áætlað var í fjárlögum sem því nemur. Þá er áætlað að árið 2014 og eftirleiðis verði tekjur ríkissjóðs um 1,5 milljörðum kr. lægri árlega en ella hefði orðið að óbreyttum lögum. Á þessu stigi liggja ekki fyrir aðrar ráðstafanir til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóð. Verður því að gera ráð fyrir að afkoman versni í sama mæli og þar með að sama eigi við um framgang markmiðs um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs ef ekki verða gerðar viðeigandi ráðstafanir til mótvægis.“

Hér var vitnað í fylgigagn með frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra sem hann leggur núna fyrir Alþingi. Það er ekki að undra að hæstv. fjármálaráðherra skuli hafa sagt fyrr í dag eða gefið til kynna að nú verði lagst yfir það hvernig hægt verði að draga úr útgjöldum ríkisins til mótvægis við þessa skattalækkun. Og er til of mikils ætlast að Alþingi vilji fá upplýsingar um hvaða hugmyndir eru á borðinu? Við vitum að fjárlagavinnan er þegar hafin. Öll ráðuneytin eru þegar komin að þeirri vinnu og við viljum fá upplýsingar um hvað það er sem á að skera niður.

Við hlustuðum á fjölmargar ræður á eldhúsdegi í gærkvöldi, margar ágætar ræður sem komu frá stjórnarmeirihlutanum. Meðal annars minnist ég þess að hlusta á hæstv. félagsmálaráðherra tala um vanda skuldugs fólks, skuldugra heimila, hvað hann væri mikill. Það er alveg rétt. Hann er mjög mikill hjá mörgum heimilum og það var kannski þess vegna sem mörg þessara heimila þess fólks kusu sérstaklega Framsóknarflokkinn vegna þess að hann ætlaði að bæta þarna úr, lækka höfuðstól lánanna.

Nú gerist það hins vegar að okkur er boðið upp á að fyrir Alþingi verði lögð þingsályktunartillaga sem felur í sér að Alþingi samþykki að fela ríkisstjórninni að standa við kosningaloforð sín. Er þetta boðlegt? Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins: Rædduð þið þetta ekkert í sumarbústaðaferðum ykkar í aðdraganda myndunar þessarar ríkisstjórnar? Fóruð þið ekkert yfir þessa stöðu? Þið eruð kosnir til valda á grundvelli þessara loforða og nú ætlast fólk til að sjá með hvaða hætti þið ætlið að efna ykkar kosningaloforð því annars eruð þið kosnir til valda á fölskum forsendum.

Það er því ekkert óeðlilegt að við óskum eftir því, áður en þessari umræðu lýkur, (Forseti hringir.) að við fáum í fyrsta lagi upplýsingar um það nákvæmlega til hvaða mótvægisaðgerða verði gripið (Forseti hringir.) eftir að þetta frumvarp verður samþykkt. Síðan er það kannski önnur saga að fá upplýsingar um innihald viðræðnanna í sumarbústöðum við Þingvallavatn og í Borgarfirði eða hvar það nú var annars staðar sem hæstv. ráðherrar hittust.