142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sagt var við umræðuna í gær að Alþingi og þjóðin fengi nefndir en engar efndir. Það er góðra gjalda vert að setja mál sem þarf að gaumgæfa og skoða allar hliðar á í nefndir, en við erum að tala um kosningaloforð ríkisstjórnar. Við ætlumst til þess að við fáum þá tillögur ríkisstjórnarinnar hingað inn á borð. Við tökum þær síðan til umfjöllunar að sjálfsögðu og greiðum um þær atkvæði, þær fara til nefndar og skoðunar, en við erum ekkert að tala um þetta. Ríkisstjórnin er ekki að tala um þetta. Hún er að tala um að hér verði samþykkt þingsályktunartillaga um að ríkisstjórninni verði falið að standa við kosningaloforð sín. Hafa menn heyrt annað eins grín? Er verið að reyna að gera grín að þjóðinni eða er verið að hlaupast undan, flýja af hólmi, hlaupast undan þeim loforðum sem kjósendum voru veitt? Menn verða að taka sjálfa sig svolítið alvarlega.

Síðan segir hæstv. fjármálaráðherra nú að við séum í raun að ákveða, eða ríkisstjórnin öllu heldur og stjórnarmeirihlutinn, að ráðast ekki í skattbreytingar og aftur er klifað á þeirri rökvillu, tel ég vera, sem hér hefur skotið upp kollinum annað veifið í dag. Við erum búin að lögfesta þennan skatt. Það er gert ráð fyrir þessum fjármunum í fjárveitingum okkar til heilbrigðiskerfisins og til löggæslunnar svo dæmi séu tekin. Þetta er bara hluti af veruleikanum. Þetta er hluti af fjárlagadæmi þessa árs. Núna er verið að skerða tekjur ríkissjóðs til að standa við þær skuldbindingar (Forseti hringir.) sem Alþingi gaf stofnunum innan samfélagsþjónustunnar. (Forseti hringir.) Við óskum eftir því og ég ítreka það að hæstv. fjármálaráðherra skýri okkur frá því hverjar mótvægisaðgerðirnar eru.