142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við komumst hvorki lönd né strönd í þessari umræðu í reynd. Hér er bara klifað á hinu sama. Ég tel mig vera í nokkrum rétti fyrir hönd þeirra sem eiga að njóta þjónustu hins opinbera og eru skattgreiðendur í þessu landi að fá að vita um afleiðingar þeirra gjörða sem okkur eru kynntar og ætlast er til að við samþykkjum, 6 milljarða kr. afsölun á skatttekjum fyrir ríkissjóð á komandi kjörtímabili.

Það er talað um þessa fjármuni eins og þeir skipti sáralitlu máli. Ég minnist þess þegar við vorum að bæta hér í við löggæsluna í lok síðasta árs við afgreiðslu fjárlaga, 200 millj. kr., og hve miklu máli þetta skipti, gríðarlegu máli. 1,5 milljarðar á ári eru mjög miklir peningar. Þeir skipta sköpum fyrir ýmsar stofnanir sem eru orðnar mjög fjárþurfi. Við skulum ekki gleyma því að eftir efnahagshrunið sem þjóðin þurfti að ganga í gegnum er opinber starfsemi víða mjög aðþrengd. Það hefur sums staðar réttilega verið gagnrýnt að gengið hafi verið of nærri henni og ég held að sú gagnrýni eigi við rök að styðjast.

Það er þess vegna og í því ljósi og í því samhengi sem við sem höfum haldið þar um stjórnvölinn höfum áhyggjur af því þegar fyrstu verk ríkisstjórnarinnar eru í þá veru að draga úr möguleikum ríkissjóðs til að standa straum af kostnaði sem við öll erum sammála um, hygg ég, að þurfi að sinna. Þar er ég að tala um löggæsluna, heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið (Forseti hringir.) og grunnþjónustuna í samfélaginu.