142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[20:13]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Herra forseti. Ég vil í byrjun þakka þingmönnum sem hér sátu fyrir góðar móttökur og árnaðaróskir og ég vona að okkur megi auðnast að bera tilhlýðilega virðingu fyrir skoðunum hver annars. Okkur veitir ekki af vegna þess að virðing fyrir Alþingi virðist vera í sögulegu lágmarki. Ég vona að okkur takist að breyta því.

Mér þótti einstaklega vænt um að fá saknaðarkveðju frá hv. þm. Helga Hjörvar þegar hann auglýsti eftir skoðunum framsóknarmanna hér í kvöld. Ég vona að hann eigi eftir að sækjast eftir að heyra skoðanir framsóknarmanna sem oftast á komandi tímum.

Ég verð að segja að sem nýliði finnst mér þessi umræða í dag hafa verið mjög góð, en að sumu leyti finnst mér hún vera framhald af stefnuræðu forsætisráðherra hér í gærkvöldi vegna þess að hún hefur farið dálítið vítt um. Það sem mér hefur fundist einna athyglisverðast í umræðunni er það hversu ferðamennskan virðist eiga fáa vini hér á Alþingi sem er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að á síðasta kjörtímabili var því haldið réttilega fram að þessi góði atvinnuvegur væri einn mesti vaxtarsproti sem við eigum til.

Þegar skattar eru lækkaðir — í þetta skipti erum við ekki að tala um að skattar verði lækkaðir því að skatturinn sem um ræðir hefur ekki enn verið lagður á — þá er þess að geta að þegar skattáþján er lækkuð, hvort sem hún er á einstaklingum eða fyrirtækjum, hefur hún venjulega í för með sér vöxt. Nú hefur komið fram, t.d. í skýrslu frá Ferðamálastofu, að heildarskatttekjur af ferðaþjónustu í fyrra voru 15 milljarðar kr. Það þýðir að til að bæta fyrir þessar 500 milljónir sem um er rætt í lækkun virðisaukaskatts þyrfti ferðamannafjöldi ekki að aukast nema um 3% til að mæta þeirri lækkun. Þetta byggist á því að það eru ekki nema um það bil 10% af kostnaði ferðamanna hér út af gistingu. Aukning ferðamennsku á þessu ári er, ef ég man rétt, nálægt 15%. Það hefur verið meiri aukning á gistinóttum, sem er út af fyrir sig athyglisvert líka. Ég vildi að þetta kæmi fram sérstaklega.

Líka vildi ég koma því að, því að mér finnst sumir hv. þingmenn ekki gera sér alveg grein fyrir því hvernig virðisaukaskattur virkar, að það er ekki verið að tala um að aflétta einhverju af ferðamannastarfseminni sem slíkri. Það eru ferðamenn sem borga þennan virðisaukaskatt. Ferðaþjónustan er eingöngu innheimtuaðili fyrir ríkissjóð á þessum tekjum. Það er því ekki um það að ræða að ferðaþjónustan sé niðurgreidd með einhverjum hætti að þessu leyti.

Síðan er líka athugunarefni að þessi starfsemi hefur legið undir vissu ámæli um að þar sé stunduð svört atvinnustarfsemi. Ekki ætla ég að leggja mat á það, hef engar forsendur til þess, en ef svo er, að menn séu tilbúnir að svíkja undan 7% skatti, eru þeir þá líklegri til þess að skila 14%? Mér þykir það ekki mjög líklegt.

Ég kom hingað upp líka vegna þess að mönnum hefur orðið tíðrætt í dag um annað mál sem er skuldavandi heimila og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem nú situr. Ég fagna því mjög að þingmenn eru óþreyjufullir eftir að komast í að ræða það mál. Ég fagna því líka að ég hef heyrt í dag og reyndar áður að forustumenn stjórnarandstöðu, þingflokksformenn og formenn, hafa lýst áhuga sínum á því að greiða fyrir þeim málum. Það er mikið fagnaðarefni.

Það lá hins vegar alltaf fyrir, og sá sem hér stendur talaði alla vega þannig alla kosningabaráttuna, að skuldavandi heimila væri ekki eitthvað sem yrði leyst á fyrstu tveim, þrem vikum sumarþings, heldur yrði sumarþing notað til þess að feta brautina svo að á haustþingi væri hægt að leggja fram mótaðar tillögur í þessu efni.

Ég skil vel óþreyju þingmanna í þessu efni rétt eins og ég skil óþol þess fólks sem bíður eftir lausn sinna mála, fólksins sem við vorum að ræða við alla kosningabaráttuna og fólks sem berst um á hæl og hnakka við að halda íbúðunum sínum. Ég skil óþreyju þessa fólks mjög vel. En ég vona og ég vænti þess að þetta sama fólk og hv. þingmenn hafi skilning á því að það þarf góðan undirbúning til að ráðast að þessu máli. Það þarf að gera það vel og það þarf að gera það rétt.

Ég get fullvissað hv. þm. Ögmund Jónasson um það að við framsóknarmenn erum ekki að hlaupa frá kosningaloforðum okkar. Við erum ekki að hlaupast undan því sem við sögðum í kosningabaráttunni. Við erum ekki að svíkjast undan merkjum. Ég vona það einlæglega að hann og fleiri stjórnarandstöðuþingmenn hér innan húss verði okkur hliðhollir þegar þar að kemur að afgreiða þessi brýnu mál og að hér megi myndast góð þverpólitísk samstaða vegna þess að fólkið okkar þarf svo sannarlega á því að halda. Þess vegna vona ég að við berum gæfu til þess að mynda góða samstöðu um þetta mál og önnur framfaramál sem hér munu koma fram.

Að svo mæltu þakka ég fyrir mig, herra forseti.