142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[20:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér er spurt hvenær megi búast við jöfnuði í ríkisfjármálum. Svarið við því er að að öllum líkindum síðar en fráfarandi ríkisstjórn ætlaði vegna þeirra veikleika sem eru að koma fram á þessu ári og munu ná inn á næsta.

Fyrri ríkisstjórn kom vissulega með efnahagsplan til nokkurra ára skömmu eftir kosningarnar 2009 en þá hafði hún líka setið í Stjórnarráðinu frá því í byrjun febrúar og hafði starfað með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum allan tímann. Því verður ekki líkt við þær aðstæður sem núverandi ríkisstjórn býr við sem er einungis búin að vera nokkra daga í Stjórnarráðinu.

Hér er gerð krafa til stjórnarflokkanna um að í hvert sinn sem lagt er fram frumvarp sem annaðhvort mun leiða til rýrari tekna eða nýrra útgjalda komi einhverjar aðlögunaraðgerðir á móti. Ég skil það ágætlega. Ég hef bent á í umræðunni í dag að þær aðlögunaraðgerðir sem grípa þurfi til séu miklu umfangsmeiri en sem nemur því sem felst í þessu frumvarpi.

En má ég þá gera sömu kröfu á stjórnarandstöðuflokkana sem hafa á fyrsta degi hér í þinginu lagt fram frumvarp til nýrra almannatryggingalaga sem mun hafa í för með sér á næstu árum verulega aukin útgjöld ríkisins án þess að gerð hafi verið grein fyrir því með hvaða hætti eigi að hagræða á móti eða finna nýja tekjustofna? Þá kröfu hljótum við að gera á móti þegar stjórnarandstöðuflokkarnir koma með frumvarp sem leiðir til útgjaldaauka, sömu kröfu og þeir vilja gera til stjórnarflokkanna.