142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[20:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri verkaskiptingu milli stjórnar og stjórnarandstöðu sem hæstv. fjármálaráðherra stingur hér upp á, þ.e. að við tökum að okkur hlutverk fjárlagaskrifstofunnar, hann komi með frumvörpin hingað inn og við fáum að koma með útfærslurnar á því hvernig eigi að koma hlutunum fyrir.

Það er auðvitað ekki þannig að þegar stjórnarandstaðan leggur fram frumvörp komi hún með útfærða fjárlagaliði en það er hægt og er rétt að gera þá kröfu til ríkisstjórnar sem ber ábyrgð á framkvæmd stefnumiða sem hafa verið kynnt opinberlega.

Hæstv. fjármálaráðherra segir: Að öllum líkindum seinna. Hvað þýðir það? 2015? Þetta eru grundvallaratriði sem skipta máli og hann ber ábyrgð núna. Ég veit að hann er óvanur því, ég veit að þetta er nýtt hlutverk. En auðvitað ber hann ábyrgð fyrir hönd ríkisins á því að útskýra hvernig ríma á saman ríkisfjármálaáætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum og til dæmis markmið um afnám hafta.

Hæstv. ráðherra ber líka ábyrgð á því að útskýra fyrir erlendum lánshæfismatsfyrirtækjum hvernig á að láta ríkisfjármálaáætlunina virka. Við erum nýbúin að selja skuldabréf til fimm og tíu ára á Bandaríkjamarkaði á grundvelli efnahagslegs árangurs sem við höfum náð á grunni ríkisfjármálaáætlunar þannig að það er ekkert gamanmál að hvika frá henni og það er ekkert prívatmál hæstv. ráðherra að velta því fyrir sér hvenær þetta geti gerst. Hann ber ábyrgð núna. Ég veit að þetta er nýtt en hann ber ábyrgð núna gagnvart þjóðinni. Það er allt annars konar staða en staða stjórnarandstöðu sem leggur eðli málsins fram sjónarmið sín og óskalista en er auðvitað ekki í þeirri stöðu að þurfa að forgangsraða í ríkisfjármálum vegna þess að hún er ekki í ríkisstjórn.