142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[20:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar þetta sama frumvarp og ég var að vísa til að er nýkomið fram frá þingflokki Samfylkingarinnar, kom fram frá fyrrverandi velferðarráðherra á vordögum var heldur ekki gerð grein fyrir því hvernig hægt væri að aðlaga aukin útgjöld að langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Í sjálfu sér hefur það ekkert með það að gera hvort málið kemur núna frá sömu þingmönnum þegar þeir eru komnir í hlutverk stjórnarandstöðu eða hvort það kom fram á meðan Samfylkingin var í ríkisstjórn. Í bæði skiptin hefur skort á að gerð væri grein fyrir því hvernig aðlaga mætti þau miklu útgjöld sem gera má ráð fyrir að fylgi samþykkt frumvarpsins að þeirri áætlun sem starfað hefur verið eftir undanfarin ár.

En þrátt fyrir að við séum kannski ekki sammála um það hvernig þetta mál kemur í þingið og hvernig því er fylgt eftir og þrátt fyrir að menn séu ósáttir við það, sumir hverjir, hér í dag að ég vísi til þess að langtímaáætlun í ríkisfjármálum verði lögð fram samhliða fjárlagafrumvarpinu í haust erum við sammála um það í grundvallaratriðum að tala þarf inn í skýran ramma. Menn verða að vera tilbúnir að bera ábyrgð á áætlun sem fylgt er eftir og tillögur sem fluttar eru í þinginu verða að ríma við áætlun ella mun hana skorta allan trúverðugleika. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að þá hætta menn að trúa því sem héðan kemur eða stafar frá ríkisstjórninni og það mun á endanum bitna á lánskjörum ríkissjóðs. Þetta getum við verið sammála um.