142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[20:43]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessari umræðu og allra síst um þann hluta sem snýr að ríkisfjármálum, en þar sem umræðan er farin að fara út og suður vil ég skjóta hér inn upplýsingum um meginatriði málsins.

Þegar virðisaukaskattur á gistiþjónustu var ákvarðaður 7% rámar mig í að vísað hafi verið til samkeppnisstöðu greinarinnar, greinin væri að keppa við önnur lönd. Sú samkeppni stendur enn. Það var árið 2007 sem gistiþjónustan var sett í lægra þrep virðisaukaskatts. Nú vill svo til að það eru til nokkuð aðgengilegar upplýsingar um virðisaukaskatt á gistiþjónustu í öðrum löndum. Þetta 7% þrep er ekkert frábrugðið því sem gerist í öðrum löndum. Til dæmis í Belgíu og Hollandi sem eru hér nærri okkur í norðurálfu, þar er virðisaukaskattur 6%, í Þýskalandi 7% og í því landi sem vísað var til áðan með háa skattlagningu, Frakklandi, er hún 5,5%.

Önnur lönd sem eru með lágan virðisaukaskatt á gistiþjónustu eru t.d. í Austur-Evrópu. Við erum að keppa við lönd um útflutning. Rökstuðningurinn var sá, ef ég man rétt, að hér væri um að ræða útflutningsgrein. Við vitum það öll hvernig er farið með útskatt af útflutningsgreinum, hvort heldur það heitir sjávarútvegur eða annað, hann er endurgreiddur, þannig að þetta var einhvers konar nálgun við útflutning á vöru, þjónustuútflutningur. Hér er því ósköp einfaldlega verið að gæta jafnræðis.

Ég skal seinna taka þátt í skattlagningarumræðunni sem var á síðustu fjórum árum fyrst og fremst í þá átt að allir skattar mundu skila sér að fullu án þess að sá sem tæki þátt í leiknum, neytandinn, mundi breyta hegðun sinni. Svo er ekki. 6–8% hækkun á verði þjónustu sem af þessu leiðir gæti leitt af sér fækkun á ferðamönnum um u.þ.b. 30–40 þúsund, ef ég kann að reikna rétt eftir teygnitölum sem voru gefnar upp í skýrslu Hagfræðistofnunar.

Sömuleiðis er náttúrlega fullt af þversögnum í þessari atvinnugrein sem heitir ferðaþjónusta eins og það að þessi gífurlega aukning á komum ferðamanna hefur alls ekki leitt af sér sambærilega aukningu á nýtingu á gistingu. Ferðaþjónusta á landsbyggðinni sem býr við 30–40% nýtingu á gistingu þrífst náttúrlega illa. Nýtingin í Reykjavík er líklega um 70%, það er annað verkefni sem ég ætla ekki að ræða hér. Það er hluti af umræðu um ferðaþjónustuna í heilu lagi.

Ég ætla líka að bæta því við að ferðaþjónusta er ekki til sem atvinnugrein í þjóðhagsreikningum. Ferðaþjónusta hefur verið skilgreind sem samsetning nokkurra atvinnugreina, þ.e. flugrekstur, gisting, veitingasala, rekstur, fólksflutningar og bílaleigur o.s.frv. Samtals er þetta milli 5 og 6,5% af landsframleiðslu. Gistiþjónustan er líklega u.þ.b. 0,45% af landsframleiðslu, en er sennilega láglaunagrein því hún er með 0,76% af mannafla í greininni.

Við erum því að fjalla um mjög viðkvæma grein og við erum í samkeppni við önnur lönd. Þýskir ferðamenn geta leitað til Austur-Evrópu eða bara dvalið í sínu heimalandi ef hér verður veruleg hækkun á gistingu.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég kannski hefði átt að hafa mína fyrstu ræðu í hinu háa Alþingi með virðulegra móti en þessa. (ÖS: Hún var virðuleg.) Var hún virðuleg? (ÖS: Já.) Við skulum ekki ræða um það hér, en ég vildi koma þessum upplýsingum á framfæri og að menn haldi sig við meginefnið en ræði ríkisfjármál frekar í annarri umræðu.