142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[20:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara þessu.

Eins og hv. þingmaður gerir sér sjálfsagt grein fyrir var nokkur hraði á málinu. Það var talið mikilvægt að koma því fyrir sumarþingið. Hins vegar var haft óformlegt samráð við þá sem komu að málinu, t.d. Héraðsdóm Reykjavíkur. Þar var talið augljóst að þetta mál mundi ekki hafa áhrif á önnur mál eða valda töfum á þeim, eins og hv. þingmaður nefndi. Málið verður unnið í góðu samstarfi.

Það er líka hárrétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að auðvitað er ekki sama staða uppi nú, sem betur fer, og var t.d. árið 2009 þegar málið var fyrst flutt. Sama staða er heldur ekki uppi og var árinu þar á eftir eða á síðasta ári. Tekist hefur að grynnka á ákveðnum málum. Skapast hefur fordæmi fyrir afgreiðslu annarra mála, þannig að málin eru sannarlega færri en þau voru, sem betur fer. Það breytir þó engu um það að við stöndum frammi fyrir því vandamáli að 28 þús. einstaklingar á Íslandi eru í greiðsluvanda. Mörg þeirra mála sem bíða úrlausnar hafa mikil áhrif á stóran hluta þess hóps.

Auðvitað mun það gerast á seinni stigum að haft verður formlegt samráð og menn koma með umsögn um frumvarpið. En það er mat fólksins í ráðuneytinu og þeirra sérfræðinga sem að málinu hafa komið að það þurfi ekki að hafa áhrif á önnur mál, eins og hv. þingmaður talaði um, og það verður unnið í góðu samstarfi við dómstóla.