142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[21:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur, eins og ég gerði í andsvari hér áðan, þakka fyrir að þetta mál hefur verið lagt fram. Mér þykir til fyrirmyndar að koma með málin hingað beint inn og tek undir þá gagnrýni sem hefur komið á þá þingsályktunartillögu sem var verið að leggja fram og óskað eftir því að Alþingi beindi hinu og þessu til ríkisstjórnarinnar. Í stað þess kemur hæstv. innanríkisráðherra beinlínis með þetta mál hingað inn þannig að við getum rætt það efnislega. Það gleður mig.

Ég er mjög fylgjandi því að ef til staðar eru einhverjar hindranir fyrir því hjá dómstólum að þeir geti flýtt þessum málum, sem eru erfið og margir bíða eftir úrlausn á, að við gerum það sem við getum hér á Alþingi til að gefa mönnum þau verkfæri sem þeir telja sig þurfa til að geta flýtt þessum málum, þ.e. ef hindranir eru til staðar þá er það vel. Ég mun taka þátt í því og styðja það.

Það sem er líka gott í þessu frumvarpi er, eins og kemur fram í athugasemdum við frumvarpið, að í því felst heimild til dómara til að sjá til þess að allir frestir í máli séu eins stuttir og mögulegt er og líka að dómur sé kveðinn upp hið fyrsta. Það er gott mál. Það kemur þó tvisvar fram í athugasemdum við þetta frumvarp, og það er þess vegna sem ég spurði að því áðan og á ekkert að vera viðkvæmt mál að ræða, að því sé ætlað að gefa mönnum heimild til að taka þessi mál fram fyrir önnur. Það er ástæðan fyrir því að ég spyr. Það á ekki heldur að vera viðkvæmt mál að ræða það. Ef ekki er þörf á því, eins og kom fram í máli innanríkisráðherra, þá er það tómt mál að tala um og er kannski óþarfi að nefna það tvisvar í greinargerðinni vegna þess að það mun bara vekja upp viðlíka spurningar og ég var með í andsvörum áðan.

Þá spyr ég aftur, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson gerði hér: Hve mikla aukningu á hraða þessara mála í gegnum dómskerfið telur hæstv. ráðherra að við getum vænst, verði þetta frumvarp að lögum? Ég held að þetta sé spurning sem við verðum óhjákvæmilega að svara fyrir afgreiðslu þessa máls. Ég ætlast ekki til þess að hæstv. ráðherra svari því hér og nú heldur taki það saman og komi með það fyrir nefnd og taki þá kannski líka upp einhverja frekari umfjöllun um það hvers vegna hér er ítrekað talað um forgangsröðun málsins ef ekki er um slíkt að ræða í raun og veru.