142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[21:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála því sem hæstv. ráðherra sagði hér í lokin, við skulum endilega vinna saman að því á þessu þingi að koma góðum málum í gegn. Þótt ég spyrji hér spurningar er ég ekkert að fara gegn málinu. Það eru engar annarlegar hvatir að baki því að ég spyrji út í það sem kemur fram í greinargerðinni. Ég var bara að spyrja og hef væntanlega fengið svar við því núna í þessari ræðu þegar sagt er, með leyfi forseta, í greinargerðinni:

„Er því lagt til í frumvarpi þessu að þeim málum þar sem ágreiningur er af því tagi sem lýst er í frumvarpinu megi veita forgang fram yfir önnur mál sem bíða meðferðar hjá dómstólum.“

Það var bara út í þetta sem ég spurði. Þar sem þetta er tiltekið í greinargerðinni spurði ég einfaldlega hvaða áhrif hæstv. ráðherra teldi að það gæti haft á önnur mál sem eru til meðferðar hjá dómstólum og eru beinlínis nefnd í greinargerðinni. Hæstv. ráðherra er væntanlega búin að svara því að þessi setning í greinargerðinni sé óþörf. Þá er þetta tómt mál að tala um vegna þess að það verða engin önnur mál sett til hliðar og þessi mál beinlínis tekin fram yfir. Það er gott og vel. Þá er það útrætt geri ég ráð fyrir.