142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

stjórn fiskveiða.

3. mál
[21:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 3 sem er 3. mál en um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Með lögum um stjórn fiskveiða eru sett ákvæði sem ætlað er að verja stefnumörkun um ábyrga nýtingu auðlinda hafsins. Með frumvarpi þessu eru tiltekin ákvæði til bráðabirgða við lögin framlengd um eitt ár. Væntingar standa til að á næsta þingi verði löggjöfin skoðuð heildstætt og því nær breytingartillaga þessa frumvarps eingöngu til eins árs.

Með frumvarpinu er lagt til að frestur aðila til að ráðstafa krókaaflahlutdeild þannig að hún rúmist innan settra marka varðandi eignarhald verði framlengdur til 1. september 2014. Jafnframt er lögð til framlenging um eitt ár á gildi ákvæðis um heimild ráðherra til að binda flutning aflaheimilda úr einstökum sveitarfélögum eða byggðarlögum ákveðnum skilyrðum sé um að ræða flutning a.m.k. fimmtungs eða meira af aflaheimildum viðkomandi staðar sem kann að hafa verulega neikvæð áhrif í atvinnu- eða byggðalegu tilliti.

Til viðbótar er lögð til framlenging tveggja ákvæða til fiskveiðiársins 2013/2014. Annars vegar er það ákvæði um að tiltekið magn af íslenskri sumargotssíld og skötusel sem ráðherra hefur til ráðstöfunar til sérstakrar úthlutunar. Áréttað er að aflamark sem úthlutað er á þennan máta er ekki framseljanlegt. Hins vegar ákvæði um að ráðstöfun tiltekins magns af þorski og ufsa verði bætt við það magn sem fyrir er til ráðstöfunar til strandveiða og stuðnings til byggðarlaga. Áréttað er að magnið skuli draga frá leyfilegum heildarafla áður en til úthlutunar kemur á grundvelli aflahlutdeilda.

Loks er með frumvarpinu lögð til framlenging til ársins 2014 á því ákvæði að hluti tekna af ráðstöfun ákveðinna aflaheimilda, 30 millj. kr., renni til rannsóknasjóðs til að auka verðmæti sjávarfangs. Tekjur umfram það renna til ríkissjóðs líkt og verið hefur síðastliðin tvö ár.

Virðulegi forseti. Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis um frumvarpið. Að öðru leyti vil ég vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.