142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

stjórn fiskveiða o.fl.

4. mál
[22:07]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að mál af sama meiði var tekið til mikillar umræðu á nýliðnu þingi eða á nýliðnu vori og vantaði herslumuninn upp á að það væri afgreitt. Í atvinnuveganefnd var nokkuð víðtæk sátt um að fara í breytingar á þessu mælingakerfi okkar. Það kerfi sem við höfum búið við er hálfgerður bastarður, eins og hér hefur komið fram. Það er mjög götótt og ekki í samræmi við reglur sem gilda annars staðar. Það er því mjög mikilvægt að laga það þannig að við getum borið okkur saman við þær reglur sem gilda um þetta í Evrópu. Þetta hefur þýtt, það kerfi sem nú er í gildi, að menn hafa verið að fara í kringum hlutina og verið að reyna að þróa skip sín með því að fara ákveðna bakleið. Ég held að allir séu sammála um að reyna að koma í veg fyrir það.

Gríðarlega mikil þróun hefur orðið í útgerð krókaaflamarksbáta, eðlilega og sem betur fer. Það er engin tilviljun að íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð, ef við berum okkur saman við það sem gerist annars staðar í heiminum, þegar kemur að hagkvæmni og arðsemi. Það er ágætt að rifja það upp þegar við sátum í atvinnuveganefnd einhvern tíma á síðasta kjörtímabili og hittum fulltrúa sjávarútvegsnefndar Evrópusambandsins. Við vorum þar að segja þeim frá því að það vandamál sem við stæðum frammi fyrir hér á Íslandi væri hversu mikið við gætum látið sjávarútveginn borga inn í okkar sameiginlegu sjóði, hversu mikil og há gjaldtakan ætti að vera af íslenskum sjávarútvegi. Þeir sögðu: Þetta er mikið lúxusvandamál. Við glímum við það vandamál á sama tíma að velta því fyrir okkur hversu mikið við eigum að greiða inn í sjávarútveg í Evrópusambandinu, hversu mikið við eigum að styrkja hann. Það er út af því að íslenskir sjómenn og sjávarútvegsfyrirtæki hafa þróað veiðiaðferðir sína, veiðar sínar og vinnslu, og hafa þannig náð að vera í fremstu röð. Það á alveg eins við um krókaaflamarkskerfið og aðra þætti í íslenskum sjávarútvegi.

Það er því mjög eðlilegt að við lítum til þess að þurfa að breyta þessum reglum í takt við þær breytingar sem eru að verða í greininni. Engum blöðum er um það að fletta að vinnuaðstaða manna og öryggi hefur batnað gríðarlega mikið á þessum bátum, sem eru smæstir í okkar sjávarútvegskerfi. Þetta hefur líka aukið á alla hagkvæmni í útgerðinni, gefið mikla og aukna möguleika og bætt mjög meðferð á afla. Þetta er þróun sem við viljum sjá að verði áfram, að við aukum hagkvæmni, sköpum tækifæri til þess, og bætum meðferð á afla og aukum þannig aflaverðmætið.

Krókaaflamarksútgerðin á Íslandi er mjög mikilvæg fyrir vinnsluna eins og komið hefur fram. Mikið af okkar verðmætasta fiski fer einmitt í gegnum það kerfi. Það er viðurkennt, vegna þeirra breytinga, sem hafa orðið í lífríkinu í kringum landið, að á ákveðnum svæðum og á ákveðnum tímum ársins þurfi þessir bátar að sækja lengra til að geta verið í fullri starfsemi. Það er áhyggjuefni ef menn eru að rembast við það á bátum sem eru ekki rétt búnir fyrir slíkar aðstæður. Inn í þetta koma atriði eins og öryggismál og það að gefa mönnum tækifæri miðað við breytta útbreiðslu helstu nytjastofna okkar sem þessir bátar sækja í, að þeir geti sótt sjóinn þó að aðeins lengra sé að fara.

Það er alveg rétt, sem hér kom fram, að í landinu er öflugur skipasmíðaiðnaður þó að hann telji ekki mikið í hagtölum, þessi framleiðsla á plastbátum flokkast ekki undir skipasmíðaiðnað, bara smíði á stálskipum. En það eru öflug fyrirtæki sem standa í þessum rekstri, fólk sem þekkir orðið þessar aðstæður mjög vel er að smíða svona báta fyrir markaði út um allan heim, bæði innan Evrópusambandsins og utan. Við þurfum að leita í smiðju þessa fólks með það hvernig best er að ganga frá þessum hlutum.

Það er mjög áhugavert að fylgjast með þessu. Þessi öflugi iðnaður hefur leitt til þess að einn skóli úti á landi er að koma upp sérstakri braut í þessari plastsmíði, menntabraut. Þetta er því að hafa áhrif í fjölbreyttari atvinnurekstri og er alveg dæmigert sem viðbótargrein — á vissan hátt er um að ræða nýsköpun sem þróast út úr öflugum og framsæknum íslenskum sjávarútvegi. Ágreiningurinn er einhver um þetta mál meðal þeirra sem reka báta í krókaaflamarkskerfinu. Landssamband smábátaeigenda hefur ekki viljað stíga þetta skref en á sama tíma stunda kannski allar helstu útgerðir í landinu þessa starfsemi allt árið um kring — þær eru grunnstoð atvinnulífs í mörgum byggðum víða um land, auk þess að vera mjög mikilvægir birgjar fyrir þær vinnslur sem ég kom hér inn á, fulltrúar þeirra aðila vilja sjá þetta þróast með þessum hætti. Það er auðvitað til þess að skjóta sterkari stoðum undir krókaaflamarkskerfið í heildina séð.

Nefndarmenn munu því þurfa að líta mjög til þess hversu stórt skref eigi að stíga, hvað sé skynsamlegt í því. Ég tek undir þau orð, sem hér hafa fallið, að þar eigum við að treysta á sérfræðingana. Það þýðir ekkert að setja 15 m hámark og 20 tonna hámark ef það verður til þess að ekki er hægt að smíða slík skip, það væri ekkert vit í því og enginn mundi gera það. Þá getur vel verið að við þurfum að breyta þessum viðmiðum að einhverju leyti. Það verður verkefni nefndarinnar og um þetta var, eins og kom fram áðan hjá hv. þm. Kristjáni Möller, fyrrverandi formanni atvinnuveganefndar, orðin nokkuð víðtæk sátt í atvinnuveganefnd á síðastliðnu vori. Ég vona að því verði fylgt eftir og við náum góðri niðurstöðu sem flestir geti sætt sig við.